Viðskiptahallinn

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 15:05:44 (5478)

2001-03-12 15:05:44# 126. lþ. 86.1 fundur 358#B viðskiptahallinn# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[15:05]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er vissulega rétt sem mátti lesa úr ræðu hv. fyrirspyrjanda, að hinar nýju tölur um viðskiptahalla valda vonbrigðum. Þær eru þó ekki í neinum grundvallaratriðum frábrugðnar því sem menn höfðu gert ráð fyrir í desembermánuði sl. Þarna hafa bæst við einhverjir milljarðar í halla en það er rétt að menn reyni að átta sig á því, í stað þess að sitja hér og flissa, af hvaða orsökum hallinn er.

Um það bil þriðjungur af þessum halla er vegna hærri olíureiknings. Annar þriðjungur er vegna hærri vaxtagreiðslna til útlanda, vegna þess að gengið hefur breyst. Þriðjungur er síðan vegna meiri innflutnings á rekstrar- og neysluvörum.

Þetta eru skýringarnar á því sem hér er um að tefla. Þetta er vissulega meiri viðskiptahalli en menn gerðu ráð fyrir en hann er þó ekki það miklu meiri að það kalli á sérstakar aðgerðir umfram þær sem hér eru í gangi í ríkisfjármálum og peningamálum.

Ég held að það sé líka nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að þessi halli, ólíkt því sem áður var á Íslandi, er ekki til kominn vegna umframútgjalda ríkissjóðs. Hann byggist allur á því að fyrirtæki og heimili í landinu hafa tekið ákvarðanir sem hér liggja að baki. Þessi viðskiptahalli er ekki með ríkisábyrgð eins og var hér lengst af á árum áður. Hann er vissulega vandamál en ég vara við því að menn geri meira úr honum en ástæða er til.