Viðskiptahallinn

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 15:11:08 (5482)

2001-03-12 15:11:08# 126. lþ. 86.1 fundur 358#B viðskiptahallinn# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Því fer fjarri að ríkisstjórninni hafi mistekist í efnahagsmálum. Það eina sem hv. þm. þrástagast á þegar hann talar um efnahagsmálin er þessi stærð, viðskiptahallinn. Hann getur ekki nefnt neitt annað til sögunnar þegar hann heldur því fram að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hafi mistekist. Meira að segja, þegar grannt er skoðað varðandi viðskiptahallann og menn skoða eðli hans, þá er hallinn auðvitað allt annars eðlis en hann var á árum áður eins og ég rakti áðan. Hann er ekki uppsprottinn í ríkisbúskapnum eins og áður var. Hann á sér aðrar og góðkynjaðri skýringar svo að ég noti orðalag þingmannsins sjálfs.

Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar gengur vel. Það er góðæri í landinu og engin ástæða til að gera úlfalda úr mýflugu með þeim hætti sem hv. þm. gerir hér.