Dreifing á erótísku sjónvarpsefni

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 15:19:50 (5488)

2001-03-12 15:19:50# 126. lþ. 86.1 fundur 360#B dreifing á erótísku sjónvarpsefni# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[15:19]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Um þetta efni fer samkvæmt útvarpslögum sem voru samþykkt á Alþingi síðasta vetur. Þar er mælt fyrir um það að sjónvarpsstöðvum er skylt að fullnægja ákveðnum skilyrðum eins og þingmenn þekkja sem fjölluðu um frv. Þetta mál hefur ekki komið inn á borð mitt sem menntmrh. og hefur ekki verið fjallað um það í menntmrn. svo ég viti til. Ef þarna er um skoðanaskylt efni að ræða á vegum Kvikmyndaskoðunar ríkisins er það mál sem sú eftirlitsstofnun mun athuga. Ef það er brot á öðrum lögum, t.d. almennum hegningarlögum þá er það lögreglunnar eða yfirvalda sem um þau mál fjalla að fara með það.

Hins vegar vil ég vekja athygli hv. þm. á því að með breytingu á stjórnarskránni, sem gerð var 1995, voru mjög skýr ákvæði um ritskoðun sett hér á landi. Ég held að menn verði einnig þegar þeir fjalla um þetta mál að líta til þeirra stjórnarskrárákvæða og átta sig á því hvaða aðili það er og hvort það er nokkur aðili hér sem hefur heimild til ritskoðunar í tilvikum sem þessum.