Skimun vegna HIV-veiru á Vogi

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 15:23:31 (5492)

2001-03-12 15:23:31# 126. lþ. 86.1 fundur 361#B skimun vegna HIV-veiru á Vogi# (óundirbúin fsp.), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[15:23]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Lykillinn að öllu meðferðar- og forvarnastarfi gegn alnæmi og svipuðum smitsjúkdómum, þar með talinni lifrarbólgu C, eru skimurannsóknir. Því fyrr sem sjúkdómurinn greinist þeim mun auðveldara er að koma við lækningu og hættan minnkar á að einstaklingur sem sýktur er smiti aðra.

Herra forseti. Nú um helgina komu fram þær fréttir að meðferðarstofnun SÁÁ á Vogi eigi í miklum rekstrarerfiðleikum og muni þar af leiðandi hætta eða draga mjög úr skimurannsóknum sem þeir hafa stundað á öllum þeim sjúklingum sem hafa verið lagðir inn á það sjúkrahús. Eins og ég sagði í upphafi er mjög mikilvægt að þessi stofnun sem og aðrar sem hafa skimurannsóknir á sinni könnu hafi til þess tryggt fjármagn. Ég vil ekki gera vanda SÁÁ hér að umtalsefni heldur beina fyrirspurn minni til hæstv. heilbrrh. þar sem skimanir í forvarna- og meðferðarskyni eru heilbrigðispólitískar ákvarðanir. SÁÁ ber ekki skylda til að skima fyrir HIV-veirunni og lifrarbólgu C en eftir sem áður er mjög mikilvægt að þeir geri það.

Herra forseti. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. hvort tryggt verði að þær skimanir sem taldar eru mikilvægar í forvarnaskyni eða vegna meðferðar sjúkdóma verði gerðar og hvernig fjármagn verði tryggt til þessara rannsókna svo að rekstrarstaða viðkomandi heilbrigðisstofnunar hafi ekki áhrif á fjölda skimana. Eins og þetta hefur verið, þ.e. að ekki er sérstaklega eyrnamerkt fjármagn til þessara rannsókna, þá hefur verið gripið til þess að nota fjármagn sem ætlað er til skimana í rekstur.