Almannatryggingar

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 16:09:02 (5504)

2001-03-12 16:09:02# 126. lþ. 86.15 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[16:09]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég var að tala um að skapa úlfúð varðandi þá framkvæmd þessa máls sem er einmitt nú til umræðu. Ég tel að niðurstaðan í þessu máli hafi verið afskaplega skynsamleg. Hún horfir til framtíðarréttinda aldraðra sem búa við tilteknar aðstæður. Við getum verið sammála því og við getum verið ósammála því. Við fjölluðum um þau mál í janúar.

Ég tel að þessi niðurstaða hafi fyrst og fremst verið skynsamleg vegna þess að aldrað fólk sér að það er réttast að berjast fyrir rétti þeirra sem verstu kjörin hafa. Við eigum fyrst og fremst að horfa til þeirra. Ég tel að hún hafi verið skynsamleg vegna þess að úrlausnin sem hér er boðið upp á bætir eingöngu kjör þeirra sem hafa það betra, fjölskyldna sem hafa það betra. Með þessu færist ekki aukið fé til fjölskyldna sem minnst hafa. Ég tel að aldraðir hafi tekið mjög skynsamlega afstöðu við að komast að þessari niðurstöðu, að horfa frá 1. janúar og fram í tímann og leggja síðan í framtíðinni áherslu á að bæta kjör þeirra sem erfiðast eiga.