Almannatryggingar

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 16:15:01 (5508)

2001-03-12 16:15:01# 126. lþ. 86.15 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[16:15]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum þá alltént sammála um að þetta sé skref í rétta átt og að eldri borgarar vildu flýta þessu máli og vildu ekki bíða þar til endurskoðunarnefndin lyki starfi sínu. Samkomulag varð milli nefndarmanna og ríkisstjórnarinnar og eldri borgara að flýta þessu máli. Það hefur verið gert og það liggur fyrir þinginu. Ég tel það fyrst og fremst mikilvægt til þess að þeir öryrkjar sem ná síðan ellilífeyrisaldri fái ekki lægri greiðslur sem ellilífeyrisþegar en örorkubótaþegar. Þess vegna tel ég enn þá mikilvægara að bíða ekki eftir nefndinni sem á að ljúka störfum um miðjan apríl, eins oft hefur komið fram, og ég held að allir hljóti að gera sér grein fyrir að það er um miðjan apríl.