Almannatryggingar

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 16:17:07 (5510)

2001-03-12 16:17:07# 126. lþ. 86.15 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[16:17]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ljóst er að hæstv. ráðherra og hv. stjórnarþingmenn eru tilbúnir að tala sig upp í mikinn hita út af þessu máli. Við erum að sönnu að tala um skref í rétta átt. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að fróðlegt verður að vita hvað kemur út úr starfi endurskoðunarnefndar um almannatryggingar sem okkur er nú sagt að eigi að ljúka störfum um miðjan apríl því að þar verður að sjálfsögðu beðið eftir kjarabótum sem heitið geta. Hér erum við að tala um framlag úr ríkissjóði um 140 millj. á ári sem kemur 1.100--1.200 einstaklingum til góða. Ekki ætla ég að gera lítið úr því og byrja á því að lýsa því yfir að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs ætlar ekki að standa í vegi fyrir því að mál þetta fái skjóta, þinglega meðferð þótt við séum að sjálfsögðu ekki sátt við málsmeðferð ríkisstjórnarinnar og höfum alla fyrirvara á einstaka þáttum þessa frv.

Ég vildi gera örfáar athugasemdir um einstaka þætti sem eins konar veganesti inn í þingnefndarstarfið.

Ljóst er að þær breytingar sem hér er verið að gera á almannatryggingalögum og taka til ellilífeyrisþega eiga rætur í öryrkjadómnum frá 19. desember á síðasta ári og laganna sem sett voru í kjölfar dómsins 24. janúar sl., enda segir eftirfarandi í athugasemdum með frv., með leyfi forseta:

,,Frumvarp það sem hér er lagt fram kveður á um að ellilífeyrisþegum verði tryggð sömu réttindi og örorkulífeyrisþegum voru tryggð með lögum nr. 3/2001, en eins og fram kom í greinargerð og fylgiskjölum með frumvarpi að þeim lögum var ekki litið svo á að dómur Hæstaréttar í málinu nr. 125/2000 ætti beint við um ellilífeyrisþega. Þrátt fyrir það telur ríkisstjórnin að til framtíðar eigi sömu efnisrök við um réttindi ellilífeyrisþega og öryrkja að þessu leyti. Einnig hafa fulltrúar Landssambands eldri borgara og Félags eldri borgara í Reykjavík lýst þeim sjónarmiðum sínum á fundum með samráðsnefnd félaganna og ríkisstjórnarinnar að þeir telji eðlilegt að sama efnisregla gildi um ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. Að því er varðar liðinn tíma er lagt til að greitt verði í samræmi við reglur frumvarpsins frá 1. janúar sl.``

Þetta var úr athugasemdum sem fylgja þessu lagafrv. og það ber náttúrlega að taka það fram að fulltrúar Landssambands eldri borgara og Félags eldri borgara í Reykjavík, sem er hér vísað til, eru ekki sammála þeirri túlkun sem hér kemur fram, að dómurinn taki ekki til kjara lífeyrisþega á sama hátt og öryrkja. Að minnsta kosti hafa þessir aðilar haldið öðru sjónarmiði á lofti.

Fyrsta athugasemdin sem ég vildi gera við þetta frv. er sú að við töldum, eins og kom nokkrum sinnum fram í umræðu á þinginu, að túlkun ríkisstjórnarinnar á fyrrnefndum dómi hefði verið röng og fullkomlega óásættanleg og reyndar óskiljanleg vegna þess að jafnvel þótt menn læsu út úr dómnum að heimilt væri að skerða tekjutryggingu öryrkja vegna tekna maka, þá var óskiljanlegt að ríkisstjórnin væri ekki reiðubúin að láta öryrkja njóta vafans því að um það hljóta menn að vera sammála að þetta var vafamál og óskiljanlegt að ríkisstjórnin vildi ekki láta öryrkja njóta vafans. Nei, þess í stað skyldi reynt að kroppa af þeim 8 þús. kr. og það varð niðurstaðan. Þetta var að okkar dómi þvert á niðurstöður hæstaréttardóms og einnig pólitískt óskiljanlegt að ríkisstjórnin skyldi vera reiðubúin að leggja eins mikið á sig og hún gerði til að hafa af fólki þessar kjarabætur.

Ef ríkisstjórnin er á því máli að sama efnisregla eigi að gilda um ellilífeyrisþega og öryrkja er hægt að álykta áfram að eðlilegt sé að tekjutryggingin sé látin standa óskert. Þetta er fyrsta atriðið sem ég vildi gagnrýna.

Hitt lýtur að afturvirkninni sem er nánast engin í þessu tilviki því að hún er aðeins til 1. janúar sl. Þetta frv. tekur til 1. janúar ársins 2001 en eins og menn rekur eflaust minni til var ákveðið að láta greiðslur til öryrkja ganga fjögur ár aftur í tímann en ekki sjö eins og eðlilegt hefði verið. Ég tek undir þá gagnrýni sem hér hefur þegar komið fram að mér hefði fundist eðlilegt að þessi afturvirkni hefði verið virt.

Þetta eru meginþættirnir í gagnrýni okkar við frv. og við höfum alla fyrirvara á afgreiðslu þess en eins og ég segi finnst okkur mikilvægt að það fái skjóta meðferð í þinginu og komi sem allra fyrst til afgreiðslu og meðhöndlunar í þingnefnd. Að lokum vil ég leggja áherslu á það atriði sem ég vék að í upphafi máls míns að það verður að sjálfsögðu fylgst grannt með því hvað ríkisstjórnin er reiðubúin að leggja mikið í endurskoðun á almannatryggingalögunum og tryggja lífeyrisþegum þannig raunverulegar kjarabætur. Þegar ég segi raunverulegar kjarabætur vil ég að sjálfsögðu þrátt fyrir gagnrýni mína ekki gera lítið úr því sem hér er að gerast. Þetta er skref í rétta átt og mikilvægur áfangi þótt við hefðum viljað meira að gert.