Skuldsetning heimila og fyrirtækja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 16:30:44 (5511)

2001-03-12 16:30:44# 126. lþ. 86.95 fundur 370#B skuldsetning heimila og fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[16:30]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Á 12 mánaða tímabili hefur skuldsetning heimila og fyrirtækja við innlánsstofnanir vaxið um 200 milljarða kr. en þar er ekki meðtalið auknar skuldir heimila við Íbúðalánasjóð. Þetta er gríðarlegur vöxtur á stuttum tíma. Það er áhyggjuefni og ég spyr hæstv. forsrh. um skoðun hans á því að stærsti hluti aukningar á skuldum heimilanna er vegna aukinna yfirdráttarlána sem bera allt að 23% vexti en yfirdráttarlán hafa fjórfaldast frá árinu 1995. Yfirdráttarlán nálgast nú 10% af heildarskuldum heimilanna, sem frá árinu 1995 hafa aukist um 70% að raungildi og eru 612 milljarðar kr., eða 2,2 millj. kr. á hvert mannsbarn.

Eignaaukning heimilanna er mun minni en hún var á sl. ári um 7% á sama tíma og skuldir jukust um 20%, eða um 100 milljarða á einu ári. Skuldir heimilanna eru nú 163% af ráðstöfunartekjum þeirra þannig að eyðsla er 63% umfram þær tekjur sem heimilin hafa til ráðstöfunar, en það samsvarar því að heimilin hafi eytt 17 mánaða ráðstöfunartekjum fram í tímann og hefur skuldsetning heimilanna ekki verið jafnmikil í a.m.k. tvo áratugi.

Umsóknir um greiðsluerfiðleikalán hjá Íbúðalánasjóði eru nú tvöfalt fleiri en í fyrra. Uppboðskröfum hefur fjölgað og stefnir í að 400 fjölskyldur tapi íbúðum sínum á árinu. Einnig hefur komið fram að árangurslausum fjárnámum hjá einstaklingum og fjölskyldum hefur fjölgað um 60% frá árinu 1998.

Ég spyr hæstv. forsrh.: Eru þetta ekki hættumerki sem ber að taka alvarlega og má ekki ætla að vanskil heimila geti verið falin í mikilli aukningu yfirdráttarlána?

Skuldsetning fyrirtækja hefur líka aukist verulega, eða um 120% að raungildi frá árinu 1995, og samsvara skuldir þeirra nú nálægt eins árs landsframleiðslu. Engan þarf því að undra að heimilin og atvinnulífið hrópi á vaxtalækkun og spurning er hvort ríkisvaldið og Seðlabankinn ætli áfram að láta fyrirtækin og heimilin engjast í spennitreyju hávaxtastefnunnar því, herra forseti, hávaxtastefnan er að sliga fyrirtækin og heimilin og þanþol þeirra er búið og það er ábyrgðarhluti að halda uppi okurvöxtum við þær aðstæður.

Sú þróun á fjármálamarkaðnum sem við höfum verið að ganga í gegnum er satt að segja óþægilega lík þeirri fjármálakreppu sem varð fyrir u.þ.b. áratug annars staðar á Norðurlöndunum.

Ég spyr hæstv. forsrh.: Telur hann að ástæða sé til að óttast að við séum að sigla inn í erfiða fjármála- eða gjaldeyriskreppu?

En hin hliðin á efnahags- og fjármálamarkaðnum er viðskiptahallinn sem hefur ekki verið meiri frá lýðveldisstofnun og síðan mikil lækkun á gengi hlutabréfa en úrvalsvísitalan á hlutabréfamarkaði hefur lækkað um 37% á einu ári. Skuldsetning heimila og fyrirtækja og gífurleg útlánaþensla sýnir að sífelldar vaxtahækkanir Seðlabankans á umliðnum missirum hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Því er ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. hvort gengið sem haldið hefur uppi nánast með handafli með háum vöxtum sé í raun fallið.

Þrátt fyrir hávaxtastefnuna hefur gengið þegar fallið um 10% á stuttum tíma og lítið virðist draga úr vexti útlána sem jukust um 28% á síðustu 12 mánuðum en helmingur útlánaaukningarinnar var fjármagnaður með erlendu lánsfé. Allt of stór þáttur í þessum útlánavexti er óráðsía í bankakerfinu sem birtist í miklu af endurlánuðu erlendu lánsfé í kapphlaupi bankanna um aukna markaðshlutdeild á lánamarkaði, m.a. vegna þess að ríkisvaldið hefur verið að kynda undir óraunhæfar væntingar með samruna bankastofnana. Þetta valdakapphlaup sem endurspeglar græðgi peningaaflanna við að ná sér í markaðsráðandi ítök í bankakerfinu hefur síðan kynnt undir hávaxtastefnuna og þensluna í þjóðfélaginu.

Síendurteknar vaxtahækkanir hafa aftur á móti bitnað með fullum þunga á heimilunum í landinu en fyrirtækin hafa lengst af getað varist vaxtahækkunum með því að taka erlent lán en vaxtamismunur miðað við önnur lönd hefur í marga mánuði verið 6,5%.

Dráttarvextir af peningakröfum voru 24% í janúar sl. og höfðu hækkað um 7,5% á tveimur árum. Á örskotstíma eru því dráttarvextirnir orðnir miklu hærri en höfuðstóll lána hjá heimilum sem eru í fjárhagserfiðleikum og vanskilum.

Ég spyr hæstv. forsrh.: Voru sífelldar yfirlýsingar fyrrv. viðskrh. og núverandi seðlabankastjóra um að vaxtalækkanir væru á næsta leiti bara markleysa eða hefur orðið stefnubreyting hjá ríkisstjórninni?

Efnahagsstefnan nærist orðið á miklum viðskiptahalla og háum vöxtum sem virðist vera ætlað að koma í veg fyrir á gengi krónunnar falli. Er það skoðun hæstv. ráðherra að það þýddi gengisfellingu ef vextir yrðu nú lækkaðir?

Ég spyr hæstv. forsrh.: Er nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að draga úr skuldabyrði heimila og fyrirtæka og ef svo er, hvaða aðgerða?