Skuldsetning heimila og fyrirtækja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 16:48:14 (5516)

2001-03-12 16:48:14# 126. lþ. 86.95 fundur 370#B skuldsetning heimila og fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[16:48]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við búum við nýja stöðu á lánsfjármarkaði, mikið framboð á lánsfé, eftir hálfrar aldar skömmtun og lánsfjárskort þegar allir tóku lán sem gátu fengið lán. Þetta er mikil breyting og sumir hafa ekki kunnað á þessa stöðu og hafa reist sér hurðarás um öxl, en ekki allir, að sjálfsögðu ekki. Á móti aukinni skuldsetningu heimilanna koma líka eignir. Það má ekki gleyma því, herra forseti. Og þær eignir hafa hækkað mikið í verði undanfarið með fasteignaverðinu. Þannig að þetta er ekki eintómt svartnætti.

Vanskil hafa bara aukist hjá fólki undir 35 ára aldri. Eldra fólk virðist standa betur í skilum en áður. Það er yngra fólkið sem ekki virðist kunna á þessa stöðu og þar hafa vanskil aukist nokkuð samkvæmt nýlegri könnun fyrirtækisins Lánstrausts. Það er sérstaklega hjá fólki á aldrinum 20--35 ára sem vanskil eru að vaxa.

Herra forseti. Nú er vandinn að finna mjúka lendingu. Við höfum búið við mikla atvinnu og stórhækkuð laun og það er mikil bjartsýni og hefur verið og ekki að ósekju. Nú er vandinn að finna mjúka lendingu, þannig að hægt sé að greiða þessar miklu lántökur. Og það gerist með því að ríkisstjórnin þarf að vera tilbúin þegar og ef fyrstu merki um minnkandi þenslu koma fram, að lækka vexti og lækka skatta; tekjuskatta, eignarskatta og skatta á fyrirtæki, til þess að örva atvinnulífið strax og fyrstu merki um minnkandi þenslu koma fram. Þannig getum við hindrað harða lendingu og gert fyrirtækjum og einstaklingum kleift að standa við lánin sem þeir hafa tekið. En að sjálfsögðu tekur hver einstaklingur sitt lán á eigin ábyrgð.