Skuldsetning heimila og fyrirtækja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 16:52:31 (5518)

2001-03-12 16:52:31# 126. lþ. 86.95 fundur 370#B skuldsetning heimila og fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[16:52]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa kallað stjórnvöld til ábyrgðar varðandi viðskiptahalla og skuldasöfnun hér á þessum fundum í dag. En ég sakna þess í umræðunni að það er eins og við höfum ekki lent í neinum áföllum varðandi viðskiptakjör okkar. Síðasta ár var erfitt að þessu leyti. Hækkun varð á olíuverði, það hefur verið lækkun á útflutningsverði okkar mikilvægu afurða, uppsjávarfiska, og veiðar á rækju hafa brugðist. Þetta þarf að taka með í reikninginn þegar talað er um aðstöðu fyrirtækja og skuldasöfnun.

Það er vissulega rétt að vextir eru háir og þeir þurfa að lækka, en hins vegar er ljóst að á tíma þessarar ríkisstjórnar hefur verið full atvinna og meiri kaupmáttur en áður. Þess vegna er ósanngjarnt að segja að efnahagsstefnan hafi brugðist. Það er gott mál og nauðsynlegt að kalla stjórnvöld til ábyrgðar og veita þeim aðhald, ég er ekki að hafa á móti því, en hins vegar finnst mér oft vanta að kastljósinu sé beint að einstaklingunum í þessu sambandi og þeir hvattir til að spara og örva þjóðhagslegan sparnað, í staðinn fyrir að verja fjármunum sínum í eyðslu. Ljóst er að það er oft ekkert samhengi á milli tekna og skulda einstaklinga. Það vita þeir sem hafa unnið að þessum málum. Og það er þörf á, jafnframt því sem stjórnvöld eru kölluð til ábyrgðar fyrir skuldasöfnun og erlendar skuldir, ég er ekki að hafa á móti því að þeir taki sinn hluta ábyrgðarinnar, að líta til einstaklingsins en það er oft talað eins og einstaklingurinn sé alveg frjáls og ábyrgð hans sé engin á málinu.