Skuldsetning heimila og fyrirtækja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 16:57:11 (5520)

2001-03-12 16:57:11# 126. lþ. 86.95 fundur 370#B skuldsetning heimila og fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), GunnB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[16:57]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan með málshefjanda í broddi fylkingar hefur í nokkurn tíma verið að mála skrattann á vegginn varðandi skuldasöfnun fyrirtækja og heimila í landinu og gjarnan leitað að sökudólgi. Við verðum að átta okkur á því að við lifum í landi þar sem frelsi ríkir í viðskiptum.

Ef fyrirtækin eru skoðuð fyrst verða menn að átta sig á því að aðgengi að fjármagni til fjárfestinga er allt annað en var hér á árum áður sem betur fer. Með tilkomu góðærisins stækkar efnahagskerfi landsins verulega og þar með fjölgaði fyrirtækjum og þau stækkuðu við sig, bæði húsnæði og tækjakost. Fjárfestingar munu skila arði í framtíðinni þótt það kosti skammtímaskuldsetningu nú um stundir. Áður fyrr þurftu fyrirtækin að taka fjármagn til fjárfestinga út úr rekstri sem olli fyrirtækjum erfiðleikum.

Góðærið hefur haft í för með sér mikla tekjuaukningu einstaklinga með auknum kaupmætti. Fólk hefur fjárfest í auknum mæli í húsnæði sem hefur haft í för með sér skuldaaukningu en eignaaukning hefur orðið að sama skapi og jafnvel meiri.

Það sem er alvarlegast er mikil einkaneysla okkar Íslendinga í hvaða lúxus sem er og lítill sparnaður þessarar þjóðar. Af því ber að hafa áhyggjur og hvetja fólk til sparnaðar og ráðdeildar. Ekkert efnahagskerfi getur staðið slíkt af sér til lengdar án áfalla. Sparnaður verður að aukast í þjóðfélaginu ef ekki á illa að fara.

Ríkisstjórnin hefur brugðist við þessum vanda með þeim eina hætti sem mögulegur er utan hafta og banna, en það var hækkun vaxta. Þegar dregur úr spennu í efnahagskerfinu eru vextir síðan lækkaðir og slíkt er orðið tímabært eins og hæstv. forsrh. hefur þegar boðað. Svartnættishjal sem stjórnarandstaðan hefur boðað hér í dag er ekki til bóta í þessu máli.