Skuldsetning heimila og fyrirtækja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 17:01:31 (5522)

2001-03-12 17:01:31# 126. lþ. 86.95 fundur 370#B skuldsetning heimila og fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[17:01]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Nei, herra forseti, á því eru engar líkur, svo ég svari spurningunni strax sem spurt var um. Ég hefði haldið það að hv. málshefjandi og stjórnarandstaðan öll mundi fagna því að vanskil væru í sögulegu lágmarki í bankakerfinu og húsnæðiskerfinu. Þau eru miklu minni en þegar hv. þm. var ráðherra hér og málshefjandi hefði átt að fagna því alveg sérstaklega.

Mér fannst reyndar í þessari umræðu hv. stjórnarandstæðinga koma fram yfirgripsmikið þekkingarleysi á lögmálum efnahagslífsins yfirleitt, hvernig þeir tengdu alla þessa þætti saman, ef ég kannski undanskil helst hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Hann virtist þó átta sig nokkurn veginn á samhengi vaxta og útlánaeftirspurnar, samhengi gengis og verðbólgu. En aðrir virtust alls ekki gera sér nokkra minnstu grein fyrir því og ekki þekkja nokkuð til slíkra þátta, við höfum svo sem séð það hér áður.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lýsti því eins og einhverjum hrikalegum atburðum að nú gætu menn fengið lán með einu símtali. Auðvitað hlýtur Samfylkingin að reyna að koma þessu í það far sem það var hérna í gamla daga þegar ég var að kaupa mér íbúð í fyrsta skipti og þurfti að standa í rigningunni fyrir utan Landsbankann með öðrum sem voru að biðja þar um lán. Þegar maður kom inn var kominn meira en 20 manna hópur þannig að maður varð að koma aftur (Gripið fram í.) og standa aftur í rigningunni og biðja um lán, og fá ekki svar strax heldur eftir hálfan mánuð og þá var búið að skera lánsbeiðnina niður um 2/3. Það er alveg hræðilegt að menn geti fengið svar með einu símtali, alveg hræðilegt. Þessu hlýtur Samfylkingin að breyta og koma þessu aftur í gamla farið, þessi afturhaldsflokkur.

Annað dæmi sem hv. þm. nefndi í útvarpinu um það hve ástandið væri orðið hrikalegt var það að nú gætu 16 ára börn fengið debetkort. Hvað gerist ef 16 ára barn er með debetkort? Það getur tekið út úr bankanum eigin peninga. Ekkert lán. Bara eigin peninga. Þetta er alveg hræðilegt. Þetta hlýtur Samfylkingin að laga þegar hún kemst til valda.