Almannatryggingar

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 17:20:53 (5529)

2001-03-12 17:20:53# 126. lþ. 86.15 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[17:20]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. hefur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar mælt fyrir frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, sem hér er til umræðu. Það felur í sér hækkun á ellilífeyri sem er sambærileg þeirri hækkun sem var ákveðin hjá öryrkjum í öryrkjamálinu svokallaða eftir að ríkisstjórnin hafði með sérstakri nefnd, sem hefur verið kölluð nefnd háyfirdómaranna, lagt blessun sína yfir hvað nægði öryrkjum sem lágmarkstekjur fyrir einstakling. Ekki var farið að hæstaréttardómnum í öryrkjamálinu eins og landsmönnum er í fersku minni og stjórnarflokkarnir tóku í engu efni ábendingum stjórnarandstöðunnar um rétt öryrkja. Jafnframt var tilkynnt að þessi breyting nú til ellilífeyrisþega sem byggð er á örlæti ríkisstjórnarinnar í garð öryrkja mundi kosta ríkissjóð um 140 millj. kr. árlega. Einungis er gert ráð fyrir kjarabótum til um 1.100 borgara sem talið er að breytingarnar nái til. Þar er um að ræða lítinn hluta þeirra ellilífeyrisþega sem búa við bágust kjör því að á árinu 1999 voru 5.855 ellilífeyrisþegar með tekjur undir 70 þús. kr. á mánuði.

Í þessu sambandi má minna á tillögur stjórnarandstöðunnar um lagfæringu á kjörum elli- og örorkulífeyrisþega á sl. hausti við afgreiðslu fjárlaga sem allar voru kolfelldar af þingmönnum stjórnarinnar. Með þessu bregst ríkisstjórnin loks að einhverju leyti við kröfum forustumanna eldri borgara í landinu, en þó er langt í land að óskum eldri borgara um réttláta lágmarksafkomu að lokinni starfsævi sé fullnægt. Mikilvægast er að leiðrétta það sem á kjör aldraðra hefur hallað og að tryggja að grunnlífeyrir verði framvegis í takt við launaþróun á almennum vinnumarkaði. Miðað við verkamannalaun lækkaði hlutfall grunnlífeyris og tekjutryggingar um 8% á árunum 1991--1998 og hefur síðan lækkað um 10% til viðbótar. Bilið milli kjara aldraðra og almennra launa í landinu hefur þannig sífellt breikkað á undanförnum árum. Slík þróun í lífsafkomu aldraðra er ekki ásættanleg. Forustumenn eldri borgara krefjast þess vitanlega að misréttið verði leiðrétt. Til þess að svo megi verða þarf að hækka bæturnar verulega og tryggja að frítekjumark og skattlagning fylgi þróun á almennum launamarkaði.

Tilraunir forustumanna eldri borgara til að fá leiðréttingu á tvísköttun lífeyris hafa ekki borið árangur. Þar er enn verulega mismunað eftir sparnaðarformum þeim tekjulægstu í óhag. Sú kjarabót sem ríkisstjórnin býður eldri borgurum nú er enn ein smáskammtalækningin á erfiðum kjörum þeirra. Málið berst til hv. Alþingis sem samkomulagsmál milli Landssambands eldri borgara og ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstaðan mun vissulega liðka fyrir því að frv. nái fram að ganga sem fyrst.

Því skal hins vegar haldið til haga í þessari umræðu að ellilífeyrisþegar eiga einnig rétt aftur í tímann líkt og öryrkjar vegna skerðinga sem þeir hafa orðið fyrir vegna tengingar tekna þeirra við tekjur maka.

Þrátt fyrir þetta smáskref vantar enn á lagfæringu þeirra sem lágar tekjur hafa sér til framfæris. Tillögur í þá veru hafa stjórnarliðar fellt við afgreiðslu fjárlaga, bæði í desember sl. og eins í desember 1999. Nú vænta margir elli- og örorkulífeyrisþegar þess að hagur þeirra batni verulega á þessu þingi vegna tillagna sem nefnd um endurskoðun á almannatryggingum mun skila af sér fyrir 15. apríl nk. Betur að svo fari og að þær væntingar gangi eftir, herra forseti.