Almannatryggingar

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 17:29:27 (5531)

2001-03-12 17:29:27# 126. lþ. 86.15 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, JBjart
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[17:29]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Með þessu frv. sem hv. heilbr.- og trmrh. hefur nú mælt fyrir er lagt til að bætt verði inn í almannatryggingalögin sérreglu, sem ætlað er að taki til ellilífeyrisþega í hjúskap eða sambúð, og á að tryggja að þeir hafi sjálfir ákveðnar lágmarkstekjur án tillits til tekna maka eins og hæstv. ráðherra hefur gert grein fyrir þessu ákvæði og þetta er nánar útlistað í frv. Í frv. er kveðið á um að ellilífeyrisþegum verði tryggður sami réttur og örorkulífeyrisþegum var tryggður með lögum nr. 3/2001, og með sömu efnisrökum, litið til framtíðar, og eiga við um rétt öryrkja að þessu leyti þrátt fyrir eins og við vitum að dómur Hæstaréttar í öryrkjamálinu tæki ekki til ellilífeyrisþega. Frv. gerir ráð fyrir að lögin taki gildi 1. apríl nk. svo hægt sé að undirbúa gildistöku laganna og reglur 1. gr. frv. gildi um greiðslur allt frá 1. janúar sl.

Af athugasemdum með frv. er ljóst að full sátt er um frv. og full sátt er um þær efnisreglur sem frv. tekur til við fulltrúa Félags eldri borgara og Landssambands aldraðra sem saman skipa samráðsnefnd félaganna og ríkisstjórnarinnar. Ég leyfi mér að fagna framkomu þessa frv. og þeim réttindum sem ellilífeyrisþegum sem frv. tekur til eru veitt með því. Ég geri ráð fyrir að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. heilbr.- og trn. svo sem hæstv. ráðherra hefur lagt til og ég vænti þess að hv. heilbr.- og trn. taki það til afgreiðslu og afgreiði það án nokkurra tafa.