Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 17:38:29 (5533)

2001-03-12 17:38:29# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[17:38]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ríkisstjórnin mæðist í mörgu og þar á meðal hefur hún verið að stofna hlutafélög út og suður. Spurning mín til hæstv. iðnrh. er hvort ekki hefði mátt sleppa því að hafa sérstakt frv. og sérstök lög um þetta ágæta hlutafélag sem á að stofna og láta það bara falla undir hlutafélagalög. Hefði ekki mátt einfalda lagasetninguna þannig?

Inni í þessu er að sjálfsögðu einkaleyfi samkvæmt 8. gr. sem hæstv. iðnrh. þyrfti þá að veita þessu hlutafélagi. Jafnframt þarf að huga að skattfrelsi hlutafélagsins því að eins og við gátum um í umræðu um Orkubú Vestfjarða eru orkufyrirtæki svo veikburða að þau geta ekki tekið þátt í velferðarkerfinu með sköttum. Þess vegna er spurningin hvort ekki megi veita orkufyrirtækjum almennt skattfrelsi, sé það meiningin --- helst öllum fyrirtækjum í landinu til þess að atvinnulífið fari nú að blómstra. Spurning mín er því fyrst og fremst þessi: Hefði ekki mátt stofna um þetta hlutfélag og láta reglur hlutafélagalaga gilda um það í staðinn fyrir að blása út lagabókina með sérlögum um hvert einasta hlutafélag sem ríkið mæðist í að eiga?