Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 17:39:54 (5534)

2001-03-12 17:39:54# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[17:39]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort lagabókin blæs svo mjög út við þetta litla frv. Engu að síður skil ég hvað hv. þm. er að fara og vil ítreka það sem fram kom í framsöguræðu minni, að til að það sem hér er gerð tillaga um geti orðið að veruleika þarf að breyta lögum vegna þess að um Hitaveitu Suðurnesja gilda sérstök lög sem eru frá því í desember 1974. Af þeim sökum er farið í þetta mál með þeim hætti sem hér hefur verið gerð grein fyrir.

Um skattalegt umhverfi orkufyrirtækja vil ég ítreka það sem ég lét koma fram um daginn þegar hv. þm. kvaddi sér hljóðs í umræðu um Orkubú Vestfjarða. Hann hafði þá svipaðar athugasemdir. Á vegum hæstv. fjmrh. starfar nefnd að endurskoðun þessa lagaumhverfis með það í huga að einfalda það og samræma þannig að ekki komi til þess að fyrirtækjum sem starfa á þessum vettvangi sé mismunað.