Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 17:43:27 (5537)

2001-03-12 17:43:27# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[17:43]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það eru nokkrir áratugir síðan ég átti aðild að því, í bæjarstjórn Keflavíkur, að stofna Hitaveitu Suðurnesja. Ég verð að segja að mér hefur alltaf fundist að þar hafi verið unnið einstakt happaverk og töluvert öðruvísi hafi horft við mannlífi á Suðurnesjum allan þennan tíma vegna Hitaveitu Suðurnesja sem hefur verið afskaplega farsælt fyrirtæki.

Hér liggur fyrir frv. sem gerir ráð fyrir því að Hitaveita Suðurnesja og Rafveita Hafnarfjarðar verði sameinaðar og stofnað hlutafélag um reksturinn. Ég hef ekkert við það að athuga. Mér finnst þetta frekar hagfelld ráðstöfun miðað við það hvernig dæmið lítur út í dag. Sveitarfélögin fá með þessu góðan pening fyrir hlut í þessu félagi og það er hið besta mál.

Ég bað hins vegar um orðið aðeins út af einu atriði. Fyrir liggur að ríkissjóður Íslands átti áður í Hitaveitu Suðurnesja um 20%. Eftir samrunann mun ríkissjóður eiga um 16,7% í hinu sameinaða fyrirtæki.

Ég hef kannski ekki verið sú tindilfættasta þegar sölu ríkisfyrirtækja eða eigna ríkisins hefur borið á góma en ég verð að segja það að ég sé hér ákveðið lag þar sem ríkissjóður Íslands á svo verðmæta eign í þessu fyrirtæki, að hann haldi kannski ekki öllu lengur í þessa eign sína heldur setji hana á markað frekar en ýmislegt annað sem rætt hefur verið um. Við höfum ágætt fordæmi úr Mývatnssveitinni, þegar lagt var fram frv. um að selja hlut ríkisins í kísilgúrverksmiðjunni á sínum tíma og ákveðið að ágóðinn af sölunni rynni til uppbyggingar atvinnulífs í Mývatnssveit. Mér finnst gráupplagt að eitthvað álíka verði ákveðið hér og nú. Ég vonast til að það verði tekið til nákvæmrar athugunar í nefndinni að ríkissjóður selji þessi bréf og ágóði af sölunni renni til að byggja upp Reykjanesbraut. Þannig mætti fjármagna það og maður sæi fyrir endann á þeirri framkvæmd.

Hæstv. forseti. Ég vonast til að tillagan sem ég flyt hér við 1. umr. málsins, vegna þess að ég á ekki aðild að hv. iðnn., komi til skoðunar í nefndinni. Ég vonast til að hægt verði að gera þær breytingar á frv. við umfjöllun nefndarinnar að slíkt verði mögulegt.