Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 17:47:28 (5538)

2001-03-12 17:47:28# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[17:47]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er á ferðinni afskaplega merkilegt og mikilvægt frv., frv. sem lýtur að lagabreytingum vegna samruna Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar eins og fram kom í máli hæstv. iðnrh. Þetta er mál sem e.t.v. lætur ekki svo mikið yfir sér en er í rauninni stórmál, alla vega fyrir Reykjanesskagann allan eins og hann leggur sig.

Hér mætti hafa mörg orð um þau áhrif sem Hitaveita Suðurnesja hefur haft á samfélagið í landnámi Steinunnar gömlu, þ.e. á Suðurnesjum, frá því að lög um Hitaveitu Suðurnesja voru sett árið 1974. Eins og oft þegar um nýjungar er að ræða voru í upphafi kannski einhverjar úrtöluraddir, en menn sóttu fram með þetta fyrirtæki af mikilli bjartsýni og einurð til þess að efla orkubúskap á Suðurnesjum. Hér mætti hafa langar ræður um hvernig til hefur tekist en í sem stystu máli má segja að áhrif Hitaveitu Suðurnesja á samfélagið suður með sjó hafi verið alveg einstaklega jákvæð og heppileg. Ekki síst í ljósi þess að þar eins og annars staðar á landinu hafa orðið breytingar á atvinnuháttum með samdrætti í sjávarútvegi, hagræðingu og tæknivæðingu, þá má segja að að mörgu leyti hafi orkan og þeir möguleikar sem hún býður upp á fært íbúum svæðisins ný tækifæri sem að mörgu leyti hafa verð vel nýtt.

Þá er ekki síður mikilvægt að með þessu vel rekna fyrirtæki hefur skapast grundvöllur fyrir ódýrri orku, bæði til húshitunar og rafhitunar sem er líklega með því ódýrasta sem þekkist hér á landi, enda er það kunnara en frá þurfi að segja að hagkvæmustu virkjanir eru þær sem samnýta hitaveitu og rafmagnsframleiðslu og þannig háttar til hjá Hitaveitu Suðurnesja. Þetta hefur skapað öryggi í raforkumálum Suðurnesjamanna. Ekki er langt síðan truflanir urðu reglulega á raforkudreifingu þar en það heyrir orðið til undantekninga í dag auk þess, eins og ég nefndi áðan, sem verðið á raforkunni er með því ódýrasta sem þekkist hér á landi. Megintriðið er svo til viðbótar þau sóknarfæri sem orkan hefur skapað, bæði vonin og trúin á að nýta orkuna skynsamlega eins og gert hefur verið með tilliti til nýrra atvinnugreina.

Þá er ekki síður mikilvægt, herra forseti, að draga fram þá miklu tæknikunnáttu sem safnast hefur innan fyrirtækisins. Þar hafa menn verið að glíma við ýmis erfið úrlausnarefni á þeim tíma sem Hitaveita Suðurnesja hefur starfað, frá 1974, og nánast ávallt sigrast á þeim en um leið hefur safnast gífurlega mikill mannauður og tæknikunnátta.

Nú hyggst þetta fyrirtæki sækja fram á nýjum vettvangi með samvinnu við Rafveitu Hafnarfjarðar og hefur málið átt sér töluvert langan aðdraganda og mikil vinna verið lögð í þessa sameiningu, bæði milli sveitarfélaganna á Suðurnesjum og eins á milli Rafveitu Hafnarfjarðar og Hitaveitu Suðurnesja. Svo sem vænta má við slíkan samruna eða samrunahugmyndir koma upp ýmis úrlausnarefni og til allrar hamingju hefur mönnum tekist að ná sáttum um það og er rétt að leggja áherslu á það að bæði suður með sjó og eins í Hafnarfirði er sátt um framvindu mála. Nú ætla menn að sækja fram á nýju svæði, til að geta nýtt þá orku sem er á Krýsuvíkursvæðinu, Trölladyngjusvæðinu og við Brennisteinsfjöll. Með öðrum orðum ætlar Hitaveita Suðurnesja að sækja inn á annars vegar stærra vinnslusvæði og hins vegar stærri markað. Þar eru menn í rauninni að færa þá tæknikunnáttu sem safnast hefur upp hjá Hitaveitu Suðurnesja og í samstarfi við Rafveitu Hafnarfjarðar og í rauninni fleiri aðila því að að þessu verkefni má segja að komi líka fyrirtækið Jarðlind með aðild sveitarfélaganna sunnan Reykjavíkur og menn ætla sér þar með að fara inn á stærra vinnslusvæði og stærri markað.

Óhætt er að segja að Reykjanesskaginn eins og hann leggur sig er eitt samfellt orkubúnt og það skapar auðvitað ótrúlega möguleika með þessum samruna að geta nýtt slíka orku skynsamlega á Reykjanesskaganum. Þarna ætla menn að nýta verkkunnáttuna sem safnast hefur upp og tengja hana þá við nýjan markað og ný vinnslusvæði og liggur í augum uppi að það gefur sveitarfélögunum sunnan Reykjavíkur gífurleg sóknarfæri í sókn til suðurs.

Annar þáttur sem ég held að sé rétt að draga fram í þessari umræðu, herra forseti, er að á höfuðborgarsvæðinu er einn stór orkurisi, Orkuveita Reykjavíkur, afar vel rekið fyrirtæki sem hefur þjónað og þjónar suðvesturhorninu afskaplega vel. En ég sé fyrir mér að með samstarfi sveitarfélaganna sunnan Reykjavíkur í gegnum þetta samrunaferli skapist samkeppni á orkumarkaðnum fyrir íbúa og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Ég trúi því að slík samkeppni muni leiða til þess að íbúar og fyrirtæki muni njóta þess í lægra orkuverði.

Í rauninni vil ég á þessu stigi ekki segja mikið meira um málið en ég vil aðeins víkja að því sem hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir sagði í ræðu sinni og taka undir þau sjónarmið að eftir þennan samruna, þegar ríkið á ekki nema rúm 16% í þessu verðmæta fyrirtæki, þá tel ég vera fullkomin rök fyrir því að ríkið nýti tækifærið og selji sinn hlut og noti þá þann hlut skynsamlega á þessu svæði. Hugmyndin um að leggja það til þess að tvöfalda Reykjanesbrautina finnst mér jafngóð og að byggja upp enn öflugra atvinnulíf á svæðinu og væri fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þess að ríkið selji þann litla eignarhluta sem það á eftir í Hitaveitu Suðurnesja verði frv. þetta að lögum.

Hér er, herra forseti, um ákaflega merkilegt og stórt mál að ræða fyrir sveitarfélögin sunnan Reykjavíkur. Um það virðist ríkja sátt meðal þeirra sem að málinu koma og ég vona því að það fái hraða og skjóta afgreiðslu í gegnum þingið.