Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 18:08:41 (5540)

2001-03-12 18:08:41# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[18:08]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Ég fagna frv. sem hér liggur fyrir um heimildir ríkisstjórnarinnar til að leggja hlutafélagi um Hitaveitu Suðurnesja, er hún sameinast Rafveitu Hafnarfjarðar, til það fé sem ríkissjóður á í hitaveitunni. Það skiptir afar miklu máli að þær fyrirætlanir sem þessi tvö fyrirtæki hafa orðið sammála um geti gengið eftir. Það skiptir raunar einnig máli fyrir fleiri sveitarfélög en þar um ræðir eins og fram kemur í grg. með frv. Eigendur Hitaveitu Suðurnesja og Hafnarfjarðarbær hafa fyrir alllöngu gert samkomulag við sveitarstjórnir í öðrum sveitarfélögum um aukið samstarf á þessu sviði. Þó að það hafi ekki komið fram í þessari greinargerð varð skömmu síðar úr, þ.e. fyrir árslok 1998, að Hitaveita Suðurnesja og sveitarfélög á Suðurlandi sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu um væntanlegt samstarf í framtíðinni á þessu sviði.

Ég tel, herra forseti, að undir liggi raunar miklu fleira en þetta. Það hefur þegar komið fram að málið tengist fyrirætlunum um nýskipan í raforkumálum þar sem komið verði á samkeppni. Ljóst er að smærri fyrirtæki í þeirri grein verða beinlínis að taka sig saman til að mæta samkeppni við hina stóru. Einnig ber að hafa í huga, þó að menn hafi hér sagt að Hitaveita Suðurnesja sé sæmilega öflug, að stóri bróðir, Landsvirkjun, fer í dag með um það bil 90% af öllum raforkuviðskiptum í landinu --- 90%, 9/10 hluta. Næststærst er Orkuveita Reykjavíkur sem fer með nálægt 2/3 af því sem afgangs er. Rafmagnsveitur ríkisins koma því næst og eru stærri en Hitaveita Suðurnesja. Við erum því að tala um afskaplega lítinn hlut af raforkuviðskiptunum. Ef við lítum yfir fyrirtæki í þessari grein þá sjáum við að þau eru flest afar smá. Þeim verður, eins og ég sagði áður, mikil nauðsyn að sameinast til að eiga í fyrirhugaðri samkeppni við hina stóru.

Ég tel, herra forseti, að miklu máli skipti að þessum fyrirtækjum verði greidd gatan við að taka upp samstarf sín á milli til að þau verði ekki litlir brauðbitar sem hreinlega verði étnir af risunum. Ég tel að það skipti miklu máli að sveitarfélögum og öðrum sem hingað til hafa sinnt þessari þjónustu við íbúana verði gert kleift að gæta þeirra verðmæta sem í starfseminni liggja þegar þjónustan breytist í hrein viðskipti á samkeppnisgrundvelli. Þar á sér stað hið sama og þegar hefur gerst í grannlöndum okkar sem á síðustu árum hafa skapað starfsemi af þessu tagi slíkt umhverfi.

Máli skiptir að hér komi fram að það er lögfræðileg nauðsyn að ríkissjóður fái heimild til þessa. Þess vegna eru lagafrv. sett fram í þessu formi og það er eðlilegt að meðan breytingarnar eiga sér stað fái þau fyrirtæki sem ganga fyrr en önnur í gegnum breytingar á forminu sambærilegan rétt varðandi skatta og aðrar skyldur og þau sem áfram verða hrein ríkiseign og verður ekki breytt í hlutafélag eða skipt um rekstrarform fyrr en síðar ef þeim verður breytt yfirleitt.

Varðandi arðsemissjónarmiðin í þessari starfsemi verður að viðurkennast --- það hefur komið fram af hálfu ýmissa sveitarfélaga og ríkisvalds um málefni annarra fyrirtækja í þessari grein og öðrum --- að menn telja arðsemi af því fjármagni sem lagt hefur verið í starfsemina vera raunverulegan langtímakostnað af fjárfestingunni. Menn telja þannig að hér sé ekki um að ræða beinan hagnað heldur endurgjald af raunverulegum tilkostnaði. Ég hygg að það sé yfirleitt sjónarmið þeirra sem leggja fé í eitthvað, hvort sem það er fé í starfsemi, í eignir eða hreinlega lánveitingar.

Að öðru leyti vil ég taka undir þau sjónarmið sem fram hafa komið um hvernig þeim fjármunum verði varið sem koma í hlut ríkisins. Ég tel raunar ekki réttmætt að tala svo um að hlutur þess minnki. Það er alveg ljóst að verðmæti hlutar ríkisins mun vaxa við þessar ákvarðanir. Sameinað fyrirtæki verður verðmætara vegna þess að það er líklegra til að standa sig betur í samkeppninni. Það er ljóst að hlutur ríkisins er nú, þegar lagt er mat á verðmæti Hitaveitu Suðurnesja í þessari sameiningu, nálægt 2 milljörðum kr. Hluti þess verðmætis verður greiddur út um leið og sameinað fyrirtæki lækkar gjaldskrár rafmagns í Hafnarfirði á þessu ári í tveimur áföngum. Það kom nefnilega í ljós að gjaldskrá fyrir rafmagn til Hafnfirðinga var nærri 18% hærri en á Suðurnesjum, þ.e. orkan frá Landsvirkjun er dýrari.

Ég held að það skipti máli, herra forseti, að við metum það líka að Hitaveita Suðurnesja hefur ekki aðeins borið uppi þjónustu á Suðurnesjum heldur og verið mjög liðtækur þátttakandi í þróun nýjunga á sviði orkustarfsemi, sérstaklega á sviði virkjunar jarðhita á háhitasvæðum. Öllum sem til þekkja er ljóst að ef síðustu áfangar á því sviði hefðu verið gerðir í samkeppnisumhverfi þá hefði Orkuveita Reykjavíkur þurft að greiða Hitaveitu Suðurnesja fyrir þekkinguna sem notuð var við að virkja á Nesjavöllum. Þetta er ljóst. Sú þekking hefði þá verið verðmæti og hefði fallið undir einka- og eignarrétt. Meðan við viðhöfðum hinn fyrri hátt þá flæddi slík þekking á milli fyrirtækja og þótti sjálfsagt að enginn greiddi fyrir. Ég tel raunar að það hefði hugsanlega getað leitt til sóunar. Það er mitt mat á því hvernig farið er með mjög verðmæta þekkingu ef ekki er litið á hana sem verðmæti.

Í gegnum tíðina hefur Hitaveita Suðurnesja, eftir að hún varð rafveita að auki og eftir að hún hafði keypt eignir og viðskipti Rafmagnsveitna ríkisins á Suðurnesjum, greitt Rafmagnsveitum ríkisins töluvert fé, á síðasta ári nær 75 milljaðra kr. Sá samningur stóð til 30 ára og er hálfnaður í dag. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvað verði um slíkar skuldbindingar þegar öllu starfsumhverfi raforkufyrirtækja verður breytt í samkeppni og annað fyrirtæki býður í þau viðskipti. Það þarf ekki að svara þeirri spurningu í dag en hins vegar er ljóst að þegar að því kemur að hið háa Alþingi þarf að fjalla um þau viðfangsefni þá verður að taka á þessum skuldbindingum eins og mörgu öðru.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta. Ég fagna þessu frv. og óska þess eindregið að það megi ganga hratt í gegnum hið háa Alþingi.