Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 18:30:07 (5542)

2001-03-12 18:30:07# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[18:30]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja. Það hefur komið fram í umræðum, og eins þekkjum við það af kynnum af starfsemi þessa fyrirtækis eins og það er nú, að þetta hefur reynst vel rekið fyrirtæki. Því hefur tekist að útvega neytendum sínum örugga orku á góðu verði. Fyrirtækið hefur verið framarlega í að taka upp nýjungar í bæði orkuvinnslu og orkunýtingu. Það hefur á margan hátt tekið virkan þátt í nýsköpun og uppbyggingu atvinnulífs á því svæði sem það hefur þjónað þannig að bæði hitaveitan og rafveitan sem hér er verið að tala um hafa staðið sig afar vel. Enda hefur hlutverk þeirra verið þjónustuhlutverk. Hlutverk þeirra hefur verið að þjónusta íbúana, þjónusta fyrirtækin, þjónusta svæðið og á grundvelli öruggrar og ódýrrar þjónustu hefur síðan íbúunum og fyrirtækjunum verið gert kleift að styrkja og auka samkeppnishæfni sína.

Herra forseti. Það hlýtur því að vera umhugsunarefni hvers vegna verið er þá að leggja út í að breyta rekstrarformi fyrirtækjanna, breyta því yfir í hlutafélög. Hlutafélagavæðing almannaþjónustu eins og hér er að meginhluta um að ræða er í sjálfu sér alvarlegt mál, eins og reyndar sá hv. þm. sem hér talaði á undan, hv. þm. Árni R. Árnason sagði, þ.e. að tryggja þurfi sveitarfélögunum það að þau geti haldið eignarhlut sínum og haldið stöðu sinni innan þessa nýja fyrirtækis eftir að það verður komið á samkeppnismarkað. Þetta er alveg hárrétt athugasemd, hv. þm., því að þegar maður hlutafélagavæðir fyrirtæki, þá er maður að hlutafélagavæða til þess að geta bæði selt og keypt hluti á almennum hlutafjármarkaði. Það er tilgangurinn. Þá ræður framboð og eftirspurn því, þ.e. að hlutirnir eru til sölu, hversu hátt verð er greitt fyrir þá og hver fær þannig að þegar hlutafélagavætt hefur verið, þá er í sjálfu sér engin trygging fyrir því, enda ekki ætlunin með slíkri aðgerð, að halda viðlíka eignarhaldi. Ef það er ætlunin þá er ekki rétt að vera að hlutafélagavæða. Hlutafélagavæðingin sem slík á fyrst og fremst við í atvinnurekstri sem einmitt getur styrkt sig í gegnum það að það skipti ekki endilega máli hverjir eiga eða hverjum þjónað er. Þá kemur líka eðlilega fram að tilgangurinn með slíku hlutafélagi er ekki endilega að þjónusta. Tilgangur slíkra hlutafélaga er þá sá með starfsemi sinni að skaffa sem mesta arðsemi fjár eigenda sinna og að greiða eigendum sínum arð í formi fjár, enda er það ítrekað í 10. gr. frv. þar sem stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Stjórn hlutafélagsins setur gjaldskrá um verð á seldri orku til notenda þar sem m.a. skal gætt almennra arðsemissjónarmiða.``

Í rauninni ætti kannski að vera óþarfi að taka þetta fram ef þetta ætti bara að vera eitt af hinum almennu markmiðum. En í frv. til laga um þetta hlutafélag er þetta í rauninni eina markmiðið sem sett er fram gagnvart eigendum sínum eða þeim sem það á að þjóna. Eina markmiðið sem í frv. er sett fram er að það skuli skaffa eigendum sínum arð.

Þess vegna er kannski ekki víst hvernig það sjónarmið sem þarna er dregið svo sterklega fram hljómar við markmið sveitarfélaganna sem þau gerðu með sér 15. okt. 1998 þar sem meginmarkmið sveitarfélaganna í þeirri samþykkt er að ná fram lægra orkuverði fyrir einstaklinga og fyrirtæki í sveitarfélögunum, að nýta jarðhitaauðlindir sveitarfélaganna og eftir atvikum víðar á landinu og að öðlast aukna hlutdeild í eigin orkumálum. Sem sagt margítrekað í þessum samþykktum er lögð áhersla á það að skaffa neytendum sínum, eigendunum sem þá eru því þetta eru sjálfseignarstofnanir þessara sveitarfélaga og þar með eru allir íbúar eigendur þess arna, skaffa þeim orkuna á sem öruggustu og bestu verði, en þegar það hefur orðið að hlutafélagi og eignarhaldið þarf ekkert endilega að vera innan þessara sveitarfélagamarka lengur, þá ber að lúta þessum arðsemiskröfum umfram önnur sjónarmið, enda er svo kveðið á um í lögunum.

Ég vil draga það fram, herra forseti, að það er ekkert sem mælir gegn því að mínu viti að fyrirtæki sem þessi, fyrirtæki sem bera ábyrgð á ákveðinni almannaþjónustu, hvort heldur það er á ákveðnum takmörkuðum svæðum eða á landsvísu, að þau séu rekin sem sameignarfélög eða sameignarfyrirtæki, það sé eignarformið. Það getur þurft að uppfylla einhverjar tilskipanir um að aðgreina hina ýmsu þætti starfseminnar eins og vinnslu og dreifingu orku og þá er það líka leysanlegt innan þeirra eignarforma.

Ég vil draga það fram, herra forseti, að hlutafélagavæðing ríkis eða sveitarfélagafyrirtækja sem er síðan ekki ætlunin að setja á einhvern almennan markað, fyrirtæki sem ekki er lengur ætlað að setja einhverjar almennar skilgeindar þjónustukröfur og skyldur eiga eiginlega ekki að mínu viti rétt á sér. Þau eru illsamrýmanleg þeim meginmarkmiðum sem eru fyrir hlutafélagaform í almennum atvinnurekstri.

Ég vil þá líka, herra forseti, draga það fram að boðað hefur verið að væntanlega verði lagt fram á Alþingi nýtt lagafrv. um skipan orkumála sem nái þá til orkumála alls landsins og skipan þeirra mála til framtíðar. Í sjálfu sér er nauðsynlegt að gera það en því eðlilegra er að bíða þá með framlagningu á svona frv. eins og hér er þangað til slík heildarorkulöggjöf liggur fyrir. Við fengum nýlega frv. til laga um hlutafélagavæðingu á Orkubúi Vestfjarða og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hefur einmitt gert grein fyrir þeim mun sem er á afstöðu ríkisins til þessara tveggja fyrirtækja og þeirra tveggja aðgerða sem þarna eru á ferðinni. Er dapurlegt til þess að vita að sami hæstv. ráðherra sé flm. að báðum þessum frumvörpum, bæði frv. um hlutafélagavæðingu Orkubús Vestfjarða þar sem rækilega er hnýtt við að það sé gert til þess að sveitarfélögin þar geti selt hluti sína og þá gangi þeir hlutir upp í greiðslu skulda við félagslega íbúðakerfið en hér er aftur á móti verið að gefa þessum landshluta sem hefur gengið vel í sínum rekstri, notið byggðabreytinganna til styrktar bæði atvinnulífi og búsetu, þar eru allt önnur markmið uppi.

Þess vegna er afar nauðsynlegt að fyrir liggi heildarstefna í orkumálum, skipan orkumála í landinu eins og þegar hefur verið boðað að komi fram á allra næstu dögum eða vikum og aðgerðir eins og stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja, stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða bíði eftir þeirri heildarlöggjöf og falli þá inn í þann ramma sem Alþingi verður sammála um að leggja upp með.

Herra forseti. Ég legg til að þegar þetta frv. fer til hv. iðnn., þá skoði nefndin það mjög vandlega hvort ekki sé eðlilegt að þau frumvörp um þessi orkubú sem hér hafa verið gerð að umtalsefni, frv. til laga um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja og það frv. sem rætt var fyrir nokkrum dögum um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða, verði látin bíða afgreiðslu þar til við höfum fengið heildarstefnu og heildarskipan orkumála til framtíðar, og þá verði þessi fyrirtæki eins og önnur hluti af þeirri heildarstefnu.