Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 18:46:26 (5546)

2001-03-12 18:46:26# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[18:46]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram í umræðum og ég undirstrikaði það líka í ræðu minni að starfsemi og rekstur þessa fyrirtækis eins og nú er gengur afar vel. Þessi fyrirtæki standa bæði undir væntingum notenda sinna um góða þjónustu, um lágt orkuverð og öryggi í allri starfsemi og þetta eru fyrirtæki sem starfa með miklum blóma eins og nú er. Þess vegna sé ég ekki að það ætti að vera nein breyting eða nein áhætta gagnvart þessum fyrirtækjum. Þau standa ekki frammi fyrir sömu vandamálum og Orkubú Vestfjarða er látið standa frammi fyrir gagnvart skuldbindingum ríkissjóðs til félagslega eignaríbúðakerfisins. Ég sé því ekki að það ætti með nokkrum hætti að vera hægt að færa rök fyrir því að það ætti að skaða starfsemi þessara fyrirtækja að þessi breyting biði almennra reglna og almennra laga um stefnu í orkumálum. Það er alveg óþolandi að ríkisstjórnin leggi fram með stuttu millibili frumvörp sem stangast nánast hvert á annars horn í stefnu í raforkumálum. Þess vegna væri mjög eðlilegt að þetta frv. bíði þess að heildarstefna í orkumálum liggi fyrir.