Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 18:59:21 (5549)

2001-03-12 18:59:21# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[18:59]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir verðum seint sammála um Evrópusambandið. Við erum einfaldlega með mismunandi sjónarhorn á það og mismunandi skoðun en ég held að það sé ekki rétt hjá hv. þm. að raforkuverð í Evrópu hafi farið lækkandi. Ég hef ekki slíkar upplýsingar. Ég hef hins vegar upplýsingar frá verkalýðshreyfingunni um fjöldauppsagnir í mörgum orkufyrirtækjum. Það má vel vera að í einhverjum tilvikum hafi þetta leitt til minni kostnaðar hjá þessum fyrirtækjum en þetta hefur valdið miklum erfiðleikum og vakið mótmæli frá verkalýðshreyfingunni.

En grundvallaratriðið finnst mér vera það að ég tel að á þessu sviði sé vænlegri leið til að ná niður raforkuverði og tryggja jöfnuð og réttlæti í þessum efnum að stuðla að samvinnu innan þessa geira og sjá til þess að hann sé nýttur sem best öllum landsmönnum til hagsbóta. Ég trúi því hreinlega ekki að á þessu sviði, það kann að eiga við um ýmis önnur svið, en ég trúi því ekki að á þessu sviði muni samkeppnin færa okkur þær hagsbætur sem hv. þm. vill stefna að. Ég held að samvinnan sé vænlegri leið á þessu sviði.