Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 19:01:03 (5550)

2001-03-12 19:01:03# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[19:01]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er á þeirri skoðun að samvinna eigi víða mjög vel við, einkum á sviðum þar sem óeðlilegt er að innleiða samkeppni. Hins vegar er það bjargföst trú mín að við séum á réttri leið hvað varðar raforkukerfið og að við hefðum farið þá leið hvað sem líður öllum Evrópusamþykktum.

Það sem ég gat um áðan varðandi raforkuverð í Evrópu eru einfaldlega upplýsingar sem ég hef rekist á en eftir þeim verður auðvitað kallað þegar kemur að frekari vinnslu málsins. Það væri til lítils að gera breytingar sem þessar ef þær ekki hefðu í för með sér þau jákvæðu áhrif sem felast í lægra orkuverði til neytenda. Til þess eru refirnir einu sinni skornir. Þó að mig og hv. þm. kunni að greina á um sitthvað er varðar Evrópusambandið þá hljótum við að geta verið sammála um að eitt og annað hafi rekið á fjörur okkar hér, einkum hvað varðar mannréttindamál og slíkt sem við getum þakkað Evrópusambandinu.