Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 19:03:16 (5552)

2001-03-12 19:03:16# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[19:03]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. síðasta ræðumanns verð ég að láta þá skoðun í ljós að ég tel að við höfum margháttaðan ávinning af því að koma á samkeppni í raforkumálum. Það að breyta formi fyrirtækis í þessari starfsemi í hlutafélag er leið til að auðvelda eigendum þess að taka upp samstarf við eigendur annarra fyrirtækja. Það er hreinlega einfaldasta og auðveldasta leiðin til að meta verðmæti eignar hvers um sig. Það leiðir í sjálfu sér ekki til samkeppni. Á samkeppnismarkaði geta fleiri rekstrarform tekist á.

Ég álít að þessi starfsemi hafi í raun breyst fyrir nokkru síðan, úr almannaþjónustu í viðskipti. Til marks um það skal ég geta þess, sem ég hélt að menn hefðu orðið varir við áður, að Orkuveita Reykjavíkur hefur um árabil sóst eftir því að eignast jarðir beggja vegna Reykjanesskagans í þeim tilgangi einum að ná þar í jarðhitaréttindi til orkuvinnslu. Ef það er ekki samkeppni þá veit ég ekki hvað samkeppni er.

Herra forseti. Það síðasta sem ég vil benda á er að fæst ríki Evrópusambandsins hafa til þessa dags framkvæmt tilskipunina um samkeppnisvæðingu raforkustarfseminnar hægar en hún gerði ráð fyrir. Þau hafa nær öll unnið hraðar og það er vart sambærilegt hvernig þau hafa gert það og hvernig einstök fylki í Bandaríkjunum hafa tekið á sömu málum. Staðreyndin er sú að í flestum fylkjum Bandaríkjanna í dag, á miklu stærri viðskiptasvæðum en í einstökum ríkjum Evrópusambandsins, er ekki samkeppni í raforkumálum. Aðferðir Kaliforníubúa, raunar Oregonbúa einnig, í þessu efni sem hafa orðið þeim fjötur um fót í dag stafa af eldri ákvörðunum en þeirri að koma á samkeppni í raforkumálum. Það er vegna eldri ákvarðana sem áttu sér rætur í öðrum sjónarmiðum.

Ég verð hins vegar að benda á að samkeppni í raforkumálum hefur leitt af sér hagstæðara verð og raunverulega samkeppni seljenda um kaupendur.