Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 19:05:30 (5553)

2001-03-12 19:05:30# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[19:05]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé einfaldlega ekki rétt að þetta hafi leitt til hagstæðara verðs. Ég minni á að iðulega er lagt upp með samkeppni að leiðarljósi og markmiði. Þegar upp er staðið búa menn hins vegar við einokun. Það hefur gerst í greinum sem þessum.

Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. um að þessi breyting á rekstrarformi getur auðveldað samruna. Í reynd eru það sveitarfélög og ríki sem eftir sem áður eiga þetta fyrirtæki, alla vega fyrst í stað. Ég vakti sérstaka athygli á því sjónarmiði sem fram kom hjá hv. þm. og hann hnykkti á í andsvari sínu að við erum að færa okkur yfir í nýja hugsun, frá því að veita þjónustu yfir í fyrirtæki sem er smíðað til að skapa eigendum sínum arð og stunda viðskipti á samkeppnissviði. Við það set ég stórt spurningarmerki og hef miklar efasemdir um að það komi landsmönnum til góða þegar upp er staðið nema síður sé.