Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 19:08:20 (5556)

2001-03-12 19:08:20# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[19:08]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég átti nokkuð erfitt með að átta mig á ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Framan af ræðu hans fannst mér hann taka undir, eins og nánast allir aðrir hafa gert, ágæti þessa frv. og þau markmið sem menn sjá í framtíðinni verði þetta frv. að lögum. En þegar á leið ræðuna og nálgaðist lokin þá skildi ég orð hv. þm. þannig að hann sæi í raun fátt jákvætt í frv. Það kann þó að vera að einkum þrjú atriði valdi því að hv. þm. leggst gegn frv. Í fyrsta lagi af því að þar er minnst á Evrópusambandið. Í öðru lagi er minnst á samkeppni. Í þriðja lagi er það ráðherra Framsfl. sem flytur frv. Þegar þetta þrennt fer saman þá á hv. þm. til með að leggjast mjög gegn málum.

Nú vil ég að hv. þm. svari því nokkuð skilmerkilega, í fyrsta lagi hvort hann telji þetta frv. ekki til góðs fyrir það samfélag sem það nær yfir, þ.e. sveitarfélögin sunnan Reykjavíkur. Ég vil einnig spyrja þingmanninn og biðja hann að svara því líka skýrt hvort hann telji æskilegra að við beitum okkur fyrir úrsögn úr EES en eins og hv. þm. veit höfum við tekið að okkur ýmsar skuldbindingar vegna tvíhliða samnings EES við Evrópusambandið. Í þriðja lagi spyr ég þingmanninn og bið hann um að svara því skýrt: Telur hann að samkeppnin muni ekki koma íbúum og fyrirtækjum á þessu svæði til góðs? Að lokum spyr ég hv. þm.: Telur hann að það muni ekki styrkja þessi svæði að Hitaveita Suðurnesja og Rafveita Hafnarfjarðar skuli sameinast og geti í sameiningu sótt fram á nýjum orkumarkaði í samkeppni, m.a. við Orkuveitu Reykjavíkur?