Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Mánudaginn 12. mars 2001, kl. 19:13:23 (5559)

2001-03-12 19:13:23# 126. lþ. 86.16 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 126. lþ.

[19:13]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi um vangaveltur hv. þm. um ríkið, hið illa ríki sem yfirtaki alla þessa starfsemi. Raforkukerfið á Íslandi hefur verið byggt upp af samfélaginu öllu. Þar hefur ríkið komið að og þar hafa sveitarfélög komið að. Mér finnst það ekki slæmur kostur, alls ekki. Framsfl. er núna að velta fyrir sér því að hefja sölu á þessum eignum. (Gripið fram í.) Ég sagði það, að það væri ríkið og það væru sveitarfélög. Þetta er undarlegur útúrsnúningur hjá hv. þm. þegar hann kemur upp til að veita andsvör.

Varðandi það hvort ég telji til góðs að sameina þessar veitur þá sagði ég áðan að þessi breyting á rekstrarfyrirkomulagi gæti auðveldað breytingar sem væru til góðs en ég hefði fyrst og fremst gagnrýnt aðra þætti, þ.e. þau viðskiptasjónarmið sem eru að ryðja sér til rúms innan þessa geira. Það var þungamiðjan í málflutningi mínum.