Reykjavíkurflugvöllur

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 13:47:06 (5568)

2001-03-13 13:47:06# 126. lþ. 87.94 fundur 374#B Reykjavíkurflugvöllur# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[13:47]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hv. málshefjandi gerði vinarþel að umræðuefni í ræðu sinni áðan og sagði borgaryfirvöld skorta vinarþel í garð landsbyggðarinnar. Ég vil leyfa mér að snúa þeim ummælum upp á hæstv. samgrh. Og þegar hv. 1. þm. Suðurl. er að kvarta undan búseturöskun, er ráð að spyrja hvort hann hafi ekki verið stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar í u.þ.b. tíu ár, ríkisstjórnar sem er ábyrg fyrir þeirri byggðaröskun sem við stöndum frammi fyrir.

Herra forseti. Hingað til hefur umræða um skipulagsmál verið fremur veikburða og hún hefur einkennst af sleggjudómum og því miður sýnast mér þeir sleggjudómar vera viðvarandi. Umræða síðustu vikna og mánaða hefur í sér fólgna möguleikana á að breyta þessari stífni. En til allrar óhamingju virðumst við ætla að klúðra tækifærinu á að skapa glaðlega og bjartsýna umræðu um framtíðarskipulag höfuðborgar þjóðarinnar og ræða hv. málshefjanda er skýrt dæmi um það. Ég tel hæstv. samgrh. hafa sýnt einstakan þvergirðingshátt í þessu máli þar sem hann hefur sett þeim sem vilja hleypa sólinni inn stólinn fyrir dyrnar og þar stendur hann með hælana grafna í gólfteppi samgrn., gardínurnar kirfilega dregnar fyrir og alla glugga lokaða. Hvað leiðir slík hegðun af sér? Hún heftir sköpunarmátt umræðunnar og það er ábyrgðarhluti. Þetta er hin sorglega staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Eina ráðið sem við höfum er að láta sem við sjáum hvorki né heyrum í hæstv. samgrh. Hans valdatími gæti heyrt sögunni til eftir tvö ár en eftir sem áður þurfa landsmenn höfuðborg með ásýnd sem við getum verið stolt af, höfuðborg sem verður þjóðinni notadrjúg miðstöð stjórnsýslu, þjónustu og skapandi mannlífs. Verum þess minnug að um það bil 450 manna þorp þurfti að víkja fyrir flugvelli á sínum tíma úr Vatnsmýrinni upp í Teiga. Þá voru íbúar ekki spurðir. Ég er á því að nú eigum við að spyrja íbúa og það er til fyrirmyndar að það skuli vera gert og við skulum ekki hefta þá skapandi umræðu sem við eigum möguleika á.