Reykjavíkurflugvöllur

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 13:53:29 (5571)

2001-03-13 13:53:29# 126. lþ. 87.94 fundur 374#B Reykjavíkurflugvöllur# (umræður utan dagskrár), KLM
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[13:53]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Í upphafi máls míns er rétt að minna hæstv. samgrh. á þá ógn sem innanlandsfluginu hefur verið sýnd með upptöku sérstaks flugmiðaskatts sem hann hefur beitt sér fyrir.

Herra forseti. Ég vara við því að þessu máli sé stillt þannig upp að þetta sé barátta milli höfuðborgar og landsbyggðar. Ég minni jafnframt á að skipulagsmál í Reykjavík heyra undir borgaryfirvöld en ekki Flugmálastjórn. Íbúar landsbyggðarinnar óska hins vegar eftir sátt og samkomulagi við höfuðborgarbúa um að miðstöð innanlandsflugs verði áfram í Reykjavík til þess að við getum áfram nýtt okkur aðalkosti flugsins sem er stuttur ferðatími. Við viljum greiðar samgöngur til og frá höfuðborginni við alla landshluta, m.a. vegna þess að Reykjavík hýsir alla stjórnsýslu landsins, aðalsjúkrastofnanir, allar helstu menningarstofnanir og svo mætti lengi telja. Þess vegna er það von mín að Reykvíkingar samþykki á laugardaginn kemur að hýsa áfram miðstöð innalandsflugs á Íslandi með því að innanlandsflugvöllurinn verði kyrr í Reykjavík en þó með þeim skilyrðum að á vegum Reykjavíkurborgar og í samvinnu við flugmálayfirvöld verði svæðið skipulagt þannig að nýtt landrými skapist fyrir Reykjavíkurborg fyrir annars konar starfsemi á því svæði sem losnar.

Við verðum að sjálfsögðu að taka tillit til óska borgaryfirvalda í Reykjavík um að fá aukið rými innan núverandi flugvallarsvæðis fyrir aðra starfsemi svo og fegrun flugvallarsvæðisins.

Herra forseti. Með tilliti til nálægðar Reykjavíkurflugvallar við sjúkrahúsin í Reykjavík liggur í augum uppi að flugvöllurinn er best settur þar sem hann er nú hvað varðar sjúkraflug og aðra heilbrigðisþjónustu. Það yrði mjög íþyngjandi fyrir flugfarþega innan lands að þurfa að nota Keflavíkurflugvöll sem innanlandsflugvöll. Það lengir ferðatímann verulega. Auk þess yrði það ógnun við framtíð innanlandsflugs í landinu. Umræðan um framtíð Reykjavíkurflugvallar er löngu tímabær og hefur verið mjög góð og rætt hefur verið opinskátt um framtíð vallarins.

Herra forseti. Landsbyggðin þarf sterka og öfluga höfuðborg og höfuðborgin þarf sterka og öfluga landsbyggð. Við verðum að taka tillit hvor til annars. Við eigum að rækta samstarf en ekki sundurlyndi.