Reykjavíkurflugvöllur

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 14:01:57 (5575)

2001-03-13 14:01:57# 126. lþ. 87.94 fundur 374#B Reykjavíkurflugvöllur# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það er sérstakt að á 20 ára tímabili hef ég aldrei tekið þátt í eins einróma utandagskrárumræðu um nokkurt mál. Allir sem hafa tekið þátt í umræðunni eru sammála um meginhvatninguna að tryggja Reykjavíkurflugvöll sem höfuðmiðstöð í flugsamgöngum áfram í Reykjavík. (Gripið fram í.) Allir sem hafa tekið þátt í umræðunni, það er klárt mál. (Gripið fram í.) Það er ástæða til þess að fagna því.

Reykjavíkurflugvöllur er öryggisventill eins og hér hefur verið bent á. Það eru nær tvö sjúkraflug, tveir sjúklingar á dag, sem koma frá landsbyggðinni til sjúkrahúsanna í Reykjavík. Þar er höfuðflugvöllurinn aðalatriðið og menn eiga að horfa á slíka hluti. Menn eiga að taka það alvarlega og menn eiga ekki að gantast með það eða gera lítið úr því. Það er skylda Íslendinga að standa saman um slíka hluti. Það er til skammar að forustumenn í stjórnmálum skuli leyfa sér annað. Þetta er álíka og það ef einhver, sem hefur ónot kemur inn á sjúkrahús, hittir starfsfólkið inni á skrifstofu, það ákveður að setja hann í hjartaaðgerð, svo er farið í hjartaaðgerð, en á eftir er athugað hvort ástæða hefur verið til að fara í hjartaaðgerðina. Þannig er sú kosning sem er stillt upp í dag. Hún er illa undirbúin, illa ígrunduð og full af gylliboðum, til að mynda hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hér áðan. Hún bauð 30 þús. manna byggð í Vatnsmýrinni, 30 þús. manna byggð. Fyrir stuttu bauð forseti borgarstjórnar 15 þús. manna byggð. Fyrir stuttu bauð einn frá skipuleggjendum Háskóla Íslands í verkfræði 22 þús. manna byggð. Miðað við yngstu byggð Reykjavíkur, Grafarvog, er pláss fyrir 8 þús. íbúa byggð í Vatnsmýrinni. Hvað eru menn að bjóða hér út og suður? Er hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir skýjum ofar? Það eru ansi margir í þessu máli skýjum ofar og ég held að það sé ráð að menn fari að lenda og komast að einhverjum raunhæfum hlutum í þessum efnum.

Ég vil skora á samgrh. að standa vörð um að byggja upp, koma vellinum í gott horf eins og hann hefur lagt til og staðið að skipulagningu þannig að hann verði prýði höfuðborgar og landsins alls, Reykjavíkurflugvöllur í höfuðborg Íslands.