Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 15:16:14 (5588)

2001-03-13 15:16:14# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[15:16]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Íslensku ríkisbankarnir fóru ekki að skila neinum hagnaði fyrr en þeir voru hlutafélagavæddir, þá fyrst fóru þeir að skila hagnaði. Þeir skiluðu kannski hagnaði til vissra aðila sem fengu lán gefin hjá þeim með neikvæðum vöxtum en það var ekki hagnaður þjóðfélagsins, það var hagnaður þeirra lántakenda sem tóku þau lán. Þeir fóru meira að segja mjög illa með sparifjáreigendur í áratugi. Enginn sagði neitt við því, ekki forveri hv. þm.

Ég ætla að spyrja einnar spurningar í viðbót: Hvernig fór með hlutafé í bankakreppunni í Noregi sem þar var í eigu einstaklinga og fyrirtækja? Ég veit ekki betur en að það hafi tapast. Hluthafarnir borguðu það verð. Ég hugsa að norska ríkið hafi ekki tapað á því að hafa endurreist kerfið og selt svo bankana.