Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 15:20:45 (5591)

2001-03-13 15:20:45# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson telur að ekki sé mikill munur á afstöðu sem ég lýsti hér annars vegar og þeirri sem fram hefur komið hjá sjálfstæðismönnum sumum. Ég skil eiginlega ekki þennan málflutning en ætla að reyna aðeins að ráða í hann. Hann segir að það sé sammerkt með því sem ég segi annars vegar og sjálfstæðismenn hins vegar að við viljum að saman fari ábyrgð og áhrif. Nú er það svo að það er orðtæki sem segir ,,margur heldur mig sig``. Væntanlega ætlar hv. þm. að ég hugsi á sömu nótum og hann gerir sjálfur og það sem hljóti að vaka fyrir mér sé að bankaráðin séu að vasast í einstökum lánveitingum, að beina lánsfjármagni ofan í þennan vasann en ekki hinn. Vel getur verið að í einhverjum tilvikum eigi bankaráð að taka og axla samfélagslega ábyrgð, að beina fjármagni til uppbyggingar á tilteknum sviðum, án þess að í því felist nokkur löngun til að mismuna á einn eða annan hátt gagnvart einstaklingum eða fyrirtækjum en taka þannig samfélagslega afstöðu. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að bankaráð setji þeim sem starfa og fara með framkvæmd innan bankanna almennar reglur. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir þetta. Það fyrirkomulag sem ég er hins vegar að mótmæla er að þeir sem stýra þessum fjármálstofnunum komi allir úr sama geiranum og jafnvel úr sama stjórnmálaflokknum. Mér finnst mjög vafasamt að hafa slíkt fyrirkomulag.