Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 15:26:04 (5594)

2001-03-13 15:26:04# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., SvH
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[15:26]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það hefur áður komið fram og þarf raunar ekki að endurtaka að sá sem hér stendur og mælir fyrir munn Frjálslynda flokksins er einkavæðingarsinni. Þess vegna fylgir flokkurinn í höfuðatriðum því frv. sem hér liggur fyrir til umræðu en ekki skilmálalaust. Og einkavæðingunni er ekki af minni hálfu eða flokks míns fylgt skilmálalaust enda hefur hún farið heldur betur hræmuglega úr hendi og er ýmissa efna að minnast í því sambandi, nærtækast er þó og eitt það versta var þegar Síldarverksmiðjur ríkisins voru gefnar að kalla má.

En ég var einnig áhugamaður um sameiningu bankanna, ríkisbankanna tveggja, af því sem við þóttumst sjá það á sínum tíma að það gæti haft í för með sér stórkostlegan sparnað, að því er menn töldu allt að einum milljarði á ári, og hefðu bankarnir þess vegna eftir sameininguna orðið þeim mun verðmætari. En þetta er liðin saga og þýðir ekki um að fást, enda eru það fullgild rök sem fram hafa verið færð og upp hefur verið kveðinn úrskurður um að það mundi um of hrugga við samkeppnisstöðu á þessum vettvangi fjármálanna.

Ég minni á það sem segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna sölu á þessum fyrirtækjum, með leyfi forseta, ,,að við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum``.

Þess vegna er það spurning, og ber að minna á að allt hefur sinn tíma, hvernig eru ástæður þjóðfélagsins og eru þær líklegar til þess að þetta hámark náist? Enginn er vafi á því að á síðustu missirum hefur verðlag þessara fyrirtækja hríðlækkað af ástæðum sem óþarft er að rifja upp. Íslenskur hlutabréfamarkaður hefur hríðfallið af þeim ástæðum að hér er mikil óvissa í ríkisfjármálum og efnahagsmálum yfirleitt enda þótt menn í æðstu stöðum vilji með engum hætti viðurkenna að svo sé.

Ég minni á það sem segir hér um áform um sölu Landsbanka og Búnaðarbanka, með leyfi forseta: ,,Gera verður þann fyrirvara að sala á hlutabréfum hlýtur ætíð að taka mið af aðstæðum á hlutabréfamarkaði, öðrum þjóðhagslegum aðstæðum og þeim mögulegu sölutækifærum sem til staðar eru hverju sinni. Því er ekki hægt að ákveða útboð hlutabréfa með löngum fyrirvara.``

Ég skal strax taka við orði þar sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson skildi við þegar hann fitjaði upp á því að menn yrðu að fara að með gát og t.d. með þeim hætti að byrja á sölu Búnaðarbankans, minni bankans og fara þó með allri gát að sölu þess fyrirtækis. Ég vitna í skýrslu Seðlabankans þar sem segir svo, með leyfi forseta:

[15:30]

,,Hér varðar mestu hvort líklegt sé að einkavæðing bankanna muni stuðla að minna eða meira ójafnvægi í þjóðarbúskapnum en nú þegar er fyrir hendi. Þar sem þessi áhrif eru óviss er ekki hægt að fullyrða að neitt í núverandi stöðu mæli sérstaklega með eða móti sölu. Þó má e.t.v. segja að í ljósi þess hve efnahagsástandið er viðkvæmt um þessar mundir og áhrifin óljós þurfi að gæta þess sérstaklega vel við útfærslu sölunnar að hún verði ekki til þess að ýta undir ójafnvægi.``

Hér er talað tæpitungulaust og það er ekki frá brjósti þess sem hér stendur, heldur er það Seðlabankinn sem er að gefa umsögn sína. Þessu hefur verið haldið fram hér af talsmönnum stjórnarandstöðunnar, en skolleyrum skellt við jafnharðan af þeim sem með völdin fara og vilja engum ráðum hlíta eða taka.

Ég leyfi mér enn, með leyfi forseta, að vitna í skýrslu Seðlabankans, svohljóðandi:

,,Áhrif á fjármálamarkaði af sölu ríkisins á hlutum sínum í Landsbankanum og Búnaðarbankanum eru í sjálfu sér óviss. Mestu skiptir hvernig tekjum ríkissjóðs af sölu hlutabréfa í bönkunum verður varið. Ef fjárfesting hins opinbera á komandi ári eykst vegna sölunnar, mun það auka eftirspurn og verðbólgu. Því er brýnt að koma í veg fyrir að tekjur af sölunni leiði til aukinna ríkisútgjalda.``

Hver er reynsla okkar ólygin á undanförnum árum af stjórn ríkisfjármálanna? Hvert er það tæki sem langöflugast er í höndum ríkisvalds hverju sinni til þess að hamla gegn þenslu og verðbólgu? Það er stjórn ríkisfjármálanna. Og hvernig hefur hún farið úr hendi á undanförnum árum? Hvað henti hér þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir við afgreiðslu fjárlaganna á liðnu hausti þar sem fjárlögin hækkuðu tölulega um 13,5%? Helmingi meira en verðþenslan þó mældi.

Þessu aðalvopni beitir ríkisvaldið alls ekki, heldur þvert á móti. Og fyrir því er það að Seðlabankinn aðvarar sérstaklega að þessu leyti. En ekki er líklegt að þeirri aðvörun verði sinnt. Hæstv. ríkisstjórn sinnir í engu þeim alvarlegu aðvörunum sem að henni er beint vegna þeirrar ofurþenslu sem við stöndum frammi fyrir og háska sem fram undan er og mun vafalaust, því miður, koma þegar í ljós á þessu ári.

Við skulum síðan aðeins víkja að flokkun útlána bankanna. Hér er sjávarútvegur, hlutfall Landsbanka Íslands í lánum til sjávarútvegs er nærri 25% af öllum útlánum hans, og álíka fjárhæð til einstaklinga í íbúðalánum og með öðrum hætti, sem sagt helmingurinn til þessara tveggja flokka. Hvernig skyldi ástandið vera í sjávarútvegi nú um þessar mundir? Ólygnastar eru fréttirnar sem daglega berast af hverju stórfyrirtækinu á fætur öðru sem er gert upp með hundruð milljóna króna tapi. Hvar ætli þær skuldir liggi sem þessi fyrirtæki skulda og hafa farið hríðvaxandi, skuldir sjávarútvegsins á undanförnum missirum og munu óðfluga nálgast 200 milljarða króna? Lunginn af þeirri skuldaaukningu er auðvitað sala kvótaþeganna á gjafakvótanum og hafa síðan skilið eftir sig skuldir sem hvíla á útveginum. En hætt er við eins og nú stendur í bæli sjávarútvegsins að kaupendur hlutabréfa í Landsbankanum verði ekki sérlega ginnkeyptir fyrir bréfunum, a.m.k. ef þau verða ekki þá á gjafverði. Og hvað með einstaklingana? Í gær var hér rætt um stöðu þeirra og heimilanna í landinu. Öllu var vísað frá og svarað með skútyrðum og hrópyrðum og köpuryrðum persónulegum í garð manna.

Það er frá því að segja að Búnaðarbankinn, svo ótrúlegt sem það kann að þykja, sem löngum kom hvergi nærri sjávarútvegi, er með nærri 15% af útlánum sínum sem er að finna í sjávarútvegi og 1/4 af öllu hjá heimilunum, hjá einstaklingunum í íbúðalánum og í öðrum neyslu- og eyðslulánum. Hvorugt getur þetta talist vera til þess að auka sölumöguleika á hlutabréfum í bönkunum, a.m.k. á góðu verði.

Hér getur að líta efni sem mælir að sínu leyti mjög með sölu og einkavæðingu bankanna. Ef við berum saman kostnaðarhlutföll í bönkunum, þ.e. rekstrargjöld sem hlutfall af hreinum rekstrartekjum, þá kemur í ljós að þar er Íslandsbanki með 55%, sem er ótrúlega hagstæð tala eftir svo skamma starfrækslu á þeim einkabanka. En meðaltal allra viðskiptabanka og stærstu sparisjóða eru yfir 67%, Landsbankinn með 73,1% og hefur aðeins tvívegis verið við hærra hlutfall, og Búnaðarbankinn er með 76,5%. Þetta sýnir okkur eitt með öðru að einkarekinn banki virðist að þessu leyti í þessu undirstöðuatriði hafa náð stórkostlegum árangri miðað við ríkisreknu fyrirtækin.

Hér er síðan skýrsla Þjóðhagsstofnunar og ég leiði nú reyndar alveg hjá mér að fara neinum orðum um það pöntunarfélag ríkisvaldsins.

En það er líka annað atriði sem hvetur mjög til þess að þessi fyrirtæki komist undan áhrifavaldi og stjórn ríkisvaldsins og það er sú reynsla sem við höfum haft af afskiptum ríkisvaldsins af Búnaðarbankayfirstjórninni á liðnum mánuðum. Þegar til þess dró að einkavæða og selja Búnaðarbankann var hafist handa um slíkar stjórnvaldsaðgerðir þar að stórlega hlýtur að bitna á verðlagi bankans. Þar var valdi beitt til þess að setja af meiri hluta bankaráðsins, sem viðskiptamenn vafalaust hafa borið traust til, og það var greinilega ekkert samráð haft við neina af starfsmönnum bankans. En það er staðreynd að undirstöðuatriði í því að vel fari úr hendi að einkavæða fyrirtæki eins og hér er á ferðinni, er að góð samvinna og samstaða náist með starfsfólki viðkomandi fyrirtækis. Um það var ekkert hirt, heldur þvert á móti. Áður en sala er hafin eins og hér er áformuð er bankaráðið sett af með illu og tveir af þremur bankastjórum. Þetta eru ekki gæfusamleg vinnubrögð svo ekki sé meira sagt. Og alls kyns ávæningar hafðar uppi um að þessir menn hafi meira og minna brotið af sér í starfi, ekki verður það með öðrum hætti skilið. Af þessum ástæðum er það sem mikil nauðsyn ber til að þetta fyrirtæki verði einkavætt til að losa það undan þessum ótrúlegu framsóknarvinnubrögðum sem við að vísu erum alvön af öðrum sönnunum sem fyrir liggja eftir langa og ömurlega reynslu.

En það er meginefni ráðlegginga Seðlabanka Íslands að farið verði með ýtrustu gát. Hér er það markmiðið að ná sem hagstæðustum kjörum og það er krafa eigandans, þjóðarinnar sjálfrar, að ekki verði hrapað að sölunni, heldur þess beðið að sem hagstæðust kjör náist fyrir eignina.

Eins og sakir standa er það afar óljóst segir Seðlabankinn sjálfur, eins og sakir standa yrði það glapræði hreint ef ríkisvaldið hefði sama hátt á um ráðstöfun þess fjár og það gerir í ríkisfjármálunum sjálfum og eyddi í þessu spennuástandi sem nú er í fjármálalífi þjóðarinnar. Allt ber þetta að þeim brunni að hægja á og taka mjög smá skref í einu eins og hér hefur verið minnst á, hefja atrennuna með minni bankanum og þó í smærri skömmtum. Einnig er athyglisvert sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson minntist hér á, að ekki var vikið í framsögu hæstv. ráðherra einu orði að hinni dreifðu eignaraðild.

Allt í þessum málatilbúnaði er með þeim hætti að ég hlýt að endurtaka að hinn eini sanni eigandi þessara mikilsverðu fyrirtækja hlýtur að ætlast til þess að farið sé með gát. Upplýst var að afkomuhrap bankanna hafi orðið 3,5 milljarðar, en formaður Íslandsbanka upplýsir að væru sömu uppgjörsreglur notaðar við uppgjör Landsbanka og Búnaðarbanka, þá yrði þetta tap, þetta hrap í afkomu 4,2 milljarðar króna. Sú blákalda staðreynd hlýtur að vega afar þungt á þá vísu að lækka hugsanlegt verð fyrir hlutabréf bankanna. Enda þótt að nauðsyn beri til að einkavæða þessi fyrirtæki og ríkið eigi ekki að vera að vasast í slíkum rekstri verður ekki séð að það ætti einhverjum sköpum að skipta þótt menn gæfu sér góðan tíma. Að vísu eru takmörk sett fyrir því hversu lengi Framsfl. getur farið með yfirstjórn þessara fyrirtækja svo ekki lendi í öngþveiti.

En eftir sem áður umfram allt er það undirstöðuatriði að fara með fyllstu gát. Hér höfum við í skýrslu Seðlabankans verið upplýst um hversu viðkvæmt fjármálalífð allt er, fjármálastjórnin á ystu nöf.