Skýrslutökur af börnum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 16:44:48 (5608)

2001-03-13 16:44:48# 126. lþ. 87.95 fundur 375#B skýrslutökur af börnum# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[16:44]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. dómsmrh. áttum við fund með formanni dómstólaráðs í lok september sl. Þá fórum við fram á að börn, yngri en 14 ára, yrðu yfirheyrð í Barnahúsinu. Dómstólaráð varð ekki fyllilega við beiðni okkar og þess ber að geta að umrætt mál var hafið áður en þessi fundur var haldinn. Barnahúsið hefur hins vegar verið mun betur nýtt eftir þennan fund okkar með formanni dómstólaráðs og í kjölfar þeirrar samþykktar sem dómstólaráð gerði eftir þann fund. Það er hins vegar í valdi viðkomandi héraðsdómara hvort hann setur dómþing í Barnahúsinu eða ekki.

Viðkomandi héraðsdómari hefur, eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér, aldrei sett dómþing í Barnahúsi. Ég tel að Barnahúsið sé mikil framför frá fyrra skipulagi. Þar eru nú 35 börn í meðferð og það er sorglegt að héraðsdómarar skuli ekki nýta þá ágætu aðstöðu sem þar er, sérstaklega þegar um lítil börn er að ræða.

Í mínum huga er meginatriðið þó að þetta mál kom upp áður en við áttum fund með formanni dómstólaráðs, hæstv. dómsmrh. og ég, en eftir það hefur notkun Barnahúss stóraukist.