Skýrslutökur af börnum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 16:49:25 (5610)

2001-03-13 16:49:25# 126. lþ. 87.95 fundur 375#B skýrslutökur af börnum# (umræður utan dagskrár), ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[16:49]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Leitin að sannleikanum í jafnerfiðum málum og kynferðisafbrotum gegn börnum getur reynst torveld. Ekki má ganga á þá grundvallarreglu í íslensku réttarfari að menn teljast saklausir uns sekt þeirra telst sönnuð. Ef einhver vafi leikur á sekt sakbornings ber að sýkna hann. Við á Íslandi búum við frjálst mat dómara á þeim sönnunargögnum sem lögð eru fram í dómsmálum. Dómari verður að leggja mat á trúverðugleika sakbornings og færa fullnægjandi rök fyrir dómsniðurstöðu sinni. Ekki er unnt að ýta sönnunargögnum til hliðar nema mat sé lagt á þau.

Við höfum sett leikreglur svo að hið sanna komi í ljós og þá um leið til að koma í veg fyrir að þeir misindismenn sem beitt hafa börn kynferðislegu ofbeldi komist ekki undan réttvísinni. Reglur í lögum um skýrslutöku af börnum eru hluti af þessum leikreglum. Á síðasta ári komu hins vegar efasemdir í ljós um að markmiðið hefði náðst þrátt fyrir ný lög sem áttu m.a. að vera barni ákveðinn stuðningur og auðvelda því aðkomuna við rannsókn máls á meintu kynferðislegu ofbeldi. Þótti ekki rétt, a.m.k. fyrst um sinn, að breyta strax lögum heldur var litið til framkvæmdarinnar í heild og athugað hvaða úrræði eða reglur mundu skila sér best barninu til hagsbóta.

Í september sl. voru síðan vinnureglur um skýrslutökur af börnum settar af hálfu dómstólaráðs. Reynslan af þeim er ekki löng en engu að síður er margt sem bendir til þess að það hafi góð áhrif á rannsókn mála. Eftir að hafa skoðað Barnahús með allshn. og félmn. þingsins á síðasta ári var ég enn sannfærð um gildi þeirra starfa sem þar eru unnin, m.a. vegna yfirlýsinga lækna að nú þurfi vart lengur að svæfa börn við þær læknisrannsóknir í þessum málum eftir að þeir hófu að framkvæma þær í Barnahúsi.

Virðulegi forseti. Þegar það kom í ljós að lögin frá árinu 1999, sem þingmenn hér á Alþingi töldu að væru til bóta fyrir meinta þolendur kynferðisafbrota, virkuðu ekki sem skyldi var tekið á því máli af hálfu hæstv. dómsmrh., félmrh. og dómstólaráðs og umræddar vinnureglur ákveðnar. Því ferli hefur allshn. þingsins fylgst með og m.a. átt fund með ýmsum þeim aðilum sem að hagsmunamálum barna koma. Mun nefndin áfram veita þessum málum athygli og taka þau upp ef þörf þykir.