Skýrslutökur af börnum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 16:51:45 (5611)

2001-03-13 16:51:45# 126. lþ. 87.95 fundur 375#B skýrslutökur af börnum# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[16:51]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Enn á ný er svo að sjá að tæknileg atriði verði til þess að kveðinn er upp sýknudómur yfir manni sem ákærður var fyrir andstyggilegan glæp. Fyrir síðustu helgi kom fram í fréttum að stjúpfaðir var sýknaður af ákæru um kynferðisafbrot gegn stjúpdóttur sinni. Fyrst játaði hinn ákærði ósæmilegt athæfi sitt gegn barninu en neitaði svo sakargiftum á síðari stigum. Myndbandsupptaka af viðtali við stúlkuna, tekin í Barnahúsi, var ekki talin fullnægjandi sönnun gegn neitun ákærða. Frásagnir vitna um það sem barnið hafði sagt þeim nægði heldur ekki gegn neitun ákærða.

Því hefur stundum verið haldið fram að í reynd sé það svo að þeir sem gerast brotlegir í kynferðisafbrotamálum skammti sér sjálfir refsingu. Þeir þurfi ekki annað en að neita sakargiftum og ekkert virðist geta brotið niður þann varnarmúr sem þeir byggja þannig upp umhverfis sig. Kjarni málsins virðist ekki lengur vera það afbrot sem ákæra snýst um heldur tæknilegur rammi málsmeðferðarinnar, orðalag eða búnaður.

Herra forseti. Barnahúsi var komið á laggirnar til að skapa aðstæður til að taka skýrslur af börnum sem talið er að brotið hafi verið á og gera það á þann veg að það hafi sem minnstar hremmingar í för með sér fyrir barnið. Barn sem gefur vitni í afbrotamáli verður óhjákvæmilega að endurlifa afbrotið við það að segja frá því og e.t.v. eins og oft reynist í kynferðisafbrotamálum í raun að ásaka nákominn ættingja eða manneskju úr nánasta umhverfi sínu. Það er skelfileg og þungbær reynsla.

Eftir miklar umræður um starfsumhverfi og framtíð Barnahússins í fyrra hafa mál skipast þannig að síðustu sex mánuði hefur nýting þess margfaldast og dómarar hafa í auknum mæli fært sér í nyt þá aðstöðu sem þar er boðið upp á og sérfræðiþekkingu sem starfsfólk þar býr yfir eins og fram hefur komið. Það er bráðnauðsynlegt að skýra lagaákvæði við yfirheyrslur í Barnahúsi og tryggja svo að ekki verði um villst að skýrslur sem þar eru teknar séu fullgild gögn í dómsmálum.