Skýrslutökur af börnum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 16:54:11 (5612)

2001-03-13 16:54:11# 126. lþ. 87.95 fundur 375#B skýrslutökur af börnum# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[16:54]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta mál er miklu stærra en sá dómur sem gefur nú tilefni til þessarar umræðu, jafnalvarlegur og hann er. Ég vil sérstaklega vekja athygli hv. alþm. á þeim upplýsingum sem fram koma í nýlegri skýrslu um barnavernd á Íslandi að vegna þess þunglamalega fyrirkomulags sem var komið á með því að ætla dómurum að bera ábyrgð á skýrslutöku af börnum við frumrannsókn kynferðisbrotamála þá hafi kærum vegna kynferðisbrota fækkað umtalsvert. Þetta þýðir að færri mál þar sem grunur leikur á að barn hafi sætt kynferðisofbeldi fá lögreglurannsókn en áður. Í stað þess velja barnaverndarnefndir í auknum mæli að vísa málum til Barnahúss í svokölluð könnunarviðtöl sem eru framkvæmd án þátttöku réttarvörslukerfisins. Þetta er afleit þróun.

En barnaverndarnefndirnar hafa gilda ástæðu til þessara vinnubragða. Þær þekkja að það er í mörgum tilvikum fráleitt að efnt sé til svo viðurhlutamikillar athafnar sem skýrslutöku fyrir dómi vegna gruns um brot við frumrannsókn málsins. Eingöngu lítið hlutfall þeirra mála þar sem grunur vaknar um kynferðisafbrot verða að dómsmáli eða 15--20. Í þessu ljósi verður að telja það fráleitt fyrirkomulag að lögfesta þá reglu að ekki sé unnt að kalla eftir framburði barns við frumrannsókn máls nema fyrir dómi. Það torveldar rannsókn og það sem verra er, það kemur í veg fyrir að unnt sé að laga rannsókn þessara mála að þörfum barnsins eins og upphaflegt markmið Barnahússins var. Ég hlýt því að spyrja dómsmrh. hvort henni finnist eðlilegt að það sé undir einstökum dómara komið hvort frumrannsókn fer fram í dómhúsi eða Barnahúsi.

Herra forseti. Flestir dómarar, ekki allir, breyttu vinnubrögðum sínum þegar þeir fóru að takast á við þessi viðkvæmu mál. Nú nota margir þeirra Barnahúsið og sérfræðiþekkinguna þar og við hljótum að fagna því en þetta mál, herra forseti, snýst ekki um dómara heldur lög og reglur, jafnræði og afleiðingar laga Alþingis.