Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 17:23:02 (5617)

2001-03-13 17:23:02# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[17:23]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ótrúleg ræða hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Hann lýsir einkahlutafélögum eða einkamarkaði þannig að sá beri ekki samfélagslegar skyldur, sé ekki hluti af nágrannasamfélagi og sé sjálfhverfur. Þetta eru einkahlutafélög og einkamarkaðir. Það er greinilegt að hv. þm. hefur aldrei rekið fyrirtæki í nútímasamfélagi. Hann gerði það heldur ekki lengi með þessum hætti.

Í nútímastjórnun er lögð áhersla á að hafa góð samskipti við starfsmenn, gefa þeim góð teikn um það að fyrirtækinu sé umhugað um hagsæld þeirra. Það er mikilvægt fyrir fyrirtækið að hafa góð samskipti við birgja, sýna þeim heiðarleika og sanngirni. Það er mikilvægt fyrir hvert fyrirtæki að eiga góð samskipti við viðskiptamenn sem versla við það og sýna þeim sanngirni og heiðarleika.

Fyrirtæki á markaði verða nefnilega að sinna samfélagslegri ábyrgð og skyldum. Þess vegna eru fyrirtæki að planta trjám, eins og sum olíufélög, eða styrkja góð málefni. Ég vil spyrja hv. þm., sem dreymir um þjóðbankann sem alþingismenn mundu stýra, hvort hann hafi verið ánægður með bankana eins og þeir voru í gamla daga, þegar menn stóðu í biðröðum og fengu skammtað eftir að hafa talað við þingmanninn sinn, eftir að hann talaði við sýslumanninn og ég veit ekki hvað. Allt í gegnum klíku. Var hv. þm. ánægður með þá stöðu, þegar bankarnir bjuggu ekki til viðskiptavild heldur viðskiptaóvild?