Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 17:25:00 (5618)

2001-03-13 17:25:00# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[17:25]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. snýr út úr málflutningi mínum. Skilji ég það rétt hjá hv. þm. að leggja eigi jafnríkar samfélagsskyldur og nágrannatilfinningu á hlutafélög sem þessi, hvers vegna er það þá ekki tekið fram í lögunum? Hvers vegna er aðeins áréttað þetta með arðsemissjónarmiðin? Hvers vegna eingöngu það? Ég vek athygli á því, herra forseti.

Ég væni ekki fyrirtækin um að þau reyni ekki að sinna skyldum sínum. En ef hv. þm. setti sig í spor fólks á Hólmavík, Skagaströnd eða Hofsósi og spyrði hvaða augum það liti á hlutafélagavæðingu þessara banka, hvort það búist við að fyrirtækin sem þar eru muni efla starfsemi sína og veita betri þjónustu, þá held ég, herra forseti, að það yrði frekar fátt um svör.

Þess vegna ítreka ég spurningu mína: Hvers vegna má ekki setja ákvæði sem kveða á um samfélagslegar skyldur líkt og gerist með hagkvæmni og arðsemi? Ég tel mjög mikilvægt að hafa ákvæði um arðsemi en það eru ekki einu markmiðin í rekstri á almannaþjónustu eins og bankaþjónustan er.