Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 17:31:59 (5622)

2001-03-13 17:31:59# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[17:31]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni af spurningum hv. þm. Jóhanns Ársælssonar get ég bent á það sem verið er að reyna að gera í sambandi við fjarskiptin, þar sem þjónustustig er skilgreint, þar sem verið er að skilgreina alþjónustu, skilgreina þá lágmarksþjónustu sem viðkomandi fyrirtæki sem eru á þeim markaði verða að veita úti um allt land og það eru fleiri en eitt fyrirtæki. Það var litið á það sem nauðsynlega umgjörð í hlutafélagavæðingu og síðan hugsanlega sölu Landssímans og hlutafélagavæðingu Íslandspósts þannig að vissulega er komin þar á ferð viss nálgun á þessu sem ég er að nefna hér, án þess að ég sé að fagna því að verið sé að búa til umgjörð fyrir sölu á Landssímanum.

Ég tel að bankaþjónustan sé svo mikilvægur hluti almannaþjónustu í landinu að það verði að setja henni mörk, setja henni skorður, setja henni sýn, því ef hún fær eingöngu að valsa eftir misjafnlega framsýnum og víðsýnum arðsemissjónarmiðum eigenda sinna þá getur hún leitt til þess að þjónusta á ákveðnum stöðum hjá ákveðnum samfélögum brotni með miklu dýrari afleiðingum en sem kostar að halda henni þar úti.