Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 17:33:58 (5623)

2001-03-13 17:33:58# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[17:33]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nú ekki alveg ánægður með þessi svör. Ég tel að það sé alveg augljóst að reglur um þessa starfsemi þurfi að vera almennar, þær þurfi að vera þannig að öll fjármálafyrirtæki búi við sambærilegar reglur. Og ef það er niðurstaðan að það dugi ekki og að ríkið þurfi að koma að með einhverjum hætti til að tryggja þjónustu þá verði það að gerast með öðru móti en að leggja það á einstök fjármálafyrirtæki. Það þýðir ekki, held ég, að benda á hugmyndir um fjarskipti til þess að jafna til þeirrar stöðu sem þarna er.

Ég held að menn verði að horfast í augu við það að ef ríkið ætlar að tryggja viðbótarþjónustu, ef sú dugar ekki sem þessi fyrirtæki veita, þá þurfi að koma til einhver sérstakur sjóður eða fyrirbrigði sem ekki á samleið með bönkunum sem eru í samkeppni á markaðnum.

Þessu vildi ég koma á framfæri. Ég held að menn verði að horfast í augu við það að umhverfið, viðskiptaumhverfið í landinu er samkeppnisumhverfi. Þeir sem ekki skilja það verða að fara vel yfir þá hluti og skoða þá upp á nýtt. Við getum ekki raskað samkeppnisumhverfinu með því að leggja mismunandi skyldur á herðar fyrirtækjum og ef ríkið ætlar að tryggja einhverja þjónustu verður það að gerast á annan hátt, t.d. með einhvers konar viðbótum frá ríkinu til þess að sjá til að viðkomandi þjónustu verði hægt að fá. Það er hugsanlegt að gera það en mér finnst fráleitt að menn ætli að gera það með því að leggja einhverjar skyldur á herðar öllum fyrirtækjum í þessum bransa sem mundi einfaldlega þýða að allt yrði miklu dýrara.