Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 17:36:11 (5624)

2001-03-13 17:36:11# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[17:36]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég skil athugasemdir hv. þm. þannig að hann hafi í sjálfu sér áhyggjur af því en sjái ekki í hvernig umgjörð þetta gæti farið.

Þetta snýst um það hvort við skilgreinum þessa þjónustu sem almannaþjónustu eða sem eigin atvinnurekstur, atvinnurekstur sem má og þarf og verður að fá að lúta bara sínum eigin lögmálum, sjálfhverfu lögmálum og arðsemiskröfu eigenda sinna. Um það snýst málið, um þá skilgreiningu. Ég tel að ef við skilgreinum almannaþjónustukröfuna munum við finna henni farveg. Það erum við að gera eins og ég nefndi, verið er að finna leið til þess í fjarskiptunum.

Ef við eigum að sitja hjá og horfa á það að hver almenningsþjónustuþátturinn á eftir öðrum fer úr tengslum við nærumhverfi sitt og verður fjarstýrður frá nærumhverfi sínu, eins og við nú stöndum frammi fyrir á svo mörgum sviðum, þá er vá fyrir dyrum. Þess vegna er fyllilega ástæða til að stíga á bremsuna og sjá hvert við erum að fara og gera okkur grein fyrir því hvert við þá viljum fara.