Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 17:58:25 (5626)

2001-03-13 17:58:25# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[17:58]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Þetta er orðin þó nokkur umræða, hefur staðið í þrjá og hálfan tíma og ýmislegt komið fram. Almennt eru hv. þm. jákvæðir gagnvart þessu frv. og það er ánægjulegt. Hér hafa verið gefin góð ráð í sambandi við ýmsa hluti og er hlustað á það allt saman.

Eins og gengur er örlítið nöldur og afstaða vinstri grænna frekar neikvæð og sennilega ætla þeir ekki að styðja málið eins og ég skil það en það kemur svo sem ekki neitt á óvart. Ég tel að málið eigi góðan stuðning þrátt fyrir það en kannski á ég ekki að fullyrða neitt að svo stöddu í þeim efnum.

Ef ég fer yfir einstaka þætti og einstök atriði sem hafa komið upp þá er það fyrst ræða hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Hann talar um dreifða eignaraðild og í rauninni er það mál sem næst er á dagskrá, það þingmál sem fjallar um hvernig tekið er á þeim þætti málsins þó að kannski sé ekki hægt að nota nákvæmlega hugtakið dreifð eignaraðild yfir þá aðgerð sem lögð er til en ég kýs að geyma mér þá umræðu þangað til í næsta dagskrármáli.

Það að almannavæða 10% eða svo hljómar náttúrlega ákaflega vel --- að gefa fólki peninga --- en miðað við það sem við erum að tala um í verðmæti bankanna, þá eru þetta miklir fjármunir. Ég held að það mundi ekki slá á þensluna og efnahagsástandinu, sem ég veit að hv. þm. Samfylkingarinnar hafa miklar áhyggjur af en þetta hljómar ákaflega vel í eyrum. Það er ekki hægt að neita því.

[18:00]

Fullyrðingar um að ég hafi ekki haft neitt samstarf eða samvinnu við starfsmenn --- hv. þm. halda því jafnvel fram það hafi ekki heldur verið fyrir jólin þegar uppi voru áform um sameiningu bankanna --- eru rangar. Ég margkallaði til mín forsvarsmenn starfsmanna beggja bankanna. Ég átti mjög gott samstarf við þá og er þakklát fyrir það. Á lokafundi okkar var ljóst að ef ekki yrði af sameiningu bankanna þá yrði farið í beina sölu þannig að starfsmenn vissu um þau áform. Þeir höfðu ekki, að því er mér skildist, athugasemdir við það og sumir urðu meira að segja áhugasamari um þá aðferð.

Einnig hefur komið fram sú hugmynd um að starfsmenn eigi ákveðinn fulltrúa í stjórn án tillits til þess hvort þeir eigi hlutafé í bönkunum. Það er mál sem ég held að taka þurfi upp á miklu breiðari grundvelli. Þetta hefur ekki verið regla hjá okkur Íslendingum fram að þessu. Hins vegar er ekki hægt að útiloka að málin geti þróast á þann veg en ég tel að það eigi ekki bara við um fjármálastofnanir heldur um miklu fleiri fyrirtæki, stofnanir og rekstur. Ég vil að það sé þá tekið upp á þeim grundvelli.

Erfitt gætir reynst að selja bankana með þeim kvöðum að ekki megi segja neinum upp og tryggja verði öllum starf. Þetta væri að sjálfsögðu æskilegt en ég held að það sé bara ekki framkvæmanlegt.

Hv. þm. hafa einnig áhyggjur af því að ekki eigi að taka tillit til stöðu á markaði og þessi sala muni ofbjóða markaðnum. Eins og ég lét koma fram í máli mínu þegar ég mælti fyrir frv. þá erum við að sjálfsögðu ekki að tala um það að fara hér út í sölu óháð stöðu á markaðnum. Ég sagði einmitt, með leyfi forseta:

,,Með frumvarpinu er lagt til að heimild Alþingis fáist til að selja hlut ríkisins í bönkunum. Sala á eftirstandandi hlut ríkisins hefjist á þessu ári og ljúki fyrir lok kjörtímabilsins árið 2003. Gera verður þann fyrirvara að sala á hlutabréfum hlýtur ætíð að taka mið af aðstæðum á hlutabréfamarkaði, öðrum þjóðhagslegum aðstæðum og þeim mögulegu sölutækifærum sem til staðar eru hverju sinni. Því er ekki hægt að ákveða útboð hlutabréfa með löngum fyrirvara.``

Þetta sagði ég í framsöguræðu minni sem var ekki það löng að ég held að hv. þm. hefðu nú alveg getað numið hana. Þar eru því settar fram algjörlega óþarfar áhyggjur.

Um ræðu hv. þm. Sverris Hermannssonar vil ég bara segja að ég man eftir manninum með plastpokann í Landsbankanum.

Ræða hv. þm. Ögmundar Jónassonar var m.a. um að í upphafi hafi í reynd aðeins verið samþykkt að selja 15% í bönkunum. Hann er eiginlega að láta að því liggja að það hafi verið ólögmætt að gefa út hlutabréf, sem ég tel að sé ekki. Ég vil fá frekari skýringar hans á því hvert hann var að fara. Hv. þm. sagði að þegar farið var út í hlutafélagavæðingu hafi ekki verið uppi áform um að selja. En þá vil ég koma hér aðeins inn á kafla í grg. með frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpinu sem varð að lögum nr. 50/1997 sagði jafnframt að hinum nýju hlutafélagabönkum verði gefið nokkurt svigrúm til að fóta sig á markaðnum. Þau sjónarmið hafi komið fram að óvissa um eignarhald hlutafélagsbankanna gæti leitt til þess að þeir ættu erfiðara með að ná hagstæðum kjörum í lánssamningum við erlenda lánveitendur. Til að tryggja festu í rekstri hlutafélagsbankanna var miðað við að ríkissjóður seldi ekki hlutabréf sín í þeim fyrstu fjögur rekstrarár þeirra.``

Þetta sagði í grg. með frv. sem varð að lögum 1997. Þannig er á engan hátt gengið á bak þeirra orða sem þá voru látin falla.

Hvað það varðar að æskilegra væri að Alþingi kysi bankaráð fremur en að ráðherra skipaði það getur verið skoðun, ég er ósammála henni. (Gripið fram í.) Ég held að við séum að fikra okkur úr því umhverfi og tel að ákaflega vel hafi tekist til um síðustu aðgerð í þeim efnum.

Ég vil aðeins segja út af ræðu hv. þm. Péturs Blöndals, af því að hann sagði að samkeppnisráð hefði hafnað sameiningu bankanna, að það er kannski ekki alveg rétt orðanotkun. Þetta var bara álit en ekki úrskurður samkeppnisráðs. Samkeppnisráð var beðið um álit og þess vegna er kannski ekki alveg rétt að segja að þeir hafi hafnað því. Miðað við álit þeirra samrýmdist hins vegar ekki samkeppnislögum að sameina bankana.

Þá kem ég að ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún talaði um starfsmenn. Ég tel mig hafa svarað því. Hún fjallaði einnig um að selja bara annan bankann, sem kom fram hjá henni og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni líka. Ég verð að taka fram að það er ekki búið að leggja nákvæmlega línur fyrir söluna ég tel enga ástæðu til að ákveða neitt fyrir fram í þessum efnum. Þetta hlýtur, eins og ég lét koma fram hér í upphafi, allt að miðast við aðstæður og þau kauptilboð sem til staðar eru. Ég held að það væri ekki skynsamlegt að fara þá leið en er hins vegar mjög ánægð með að heyra að hv. þingmenn Samfylkingarinnar eru jákvæðir gagnvart því að selja báða bankana.

Hv. þm. spurði um skýrslu Samkeppnisstofnunar í sambandi við eigna- og stjórnunartengsl. Hún verður eftir því sem ég best veit tilbúin, eins og ég hef alltaf sagt, áður en þingi lýkur í vor. Þetta er náttúrlega mikil vinna en við það verður staðið. Ég get því miður ekki gefið frekari loforð í sambandi við það.

Um að hægt sé að tryggja innstæður þá er í lögum kveðið á um tryggingu upp að vissu marki. Þannig hefur það verið í flestum ríkjum. Ef upp koma alvarlegar aðstæður á þessum markaði grípur ríkisvaldið inn í. Ég ætla ekki að vera með hrakspár en tel nokkuð víst að ríkisvaldið mundi bregðast svipað við hér á landi eins og tíðkast hefur hjá öðrum þjóðum.

Því var haldið fram að engin stefna sé í þessari einkavæðingu. Það er stefna. Hún er sú að selja bankana á þessu tímabili en það er ekki hægt að segja nákvæmlega til um það í dag hvernig það verður gert. Það mundi líka skerða stöðu okkar í sambandi við söluna ef við útlistuðum nákvæmlega á þessari stundu hvernig hún á að fara fram. Það liggur fyrir í grg. og kom í aðalatriðum fram í máli mínu í upphafi hvernig þetta er hugsað. Auðvitað verður þetta unnið í mjög náinni samvinnu við einkavæðingarnefnd eins og alltaf er.

Miðað við þau orð sem féllu hér í umræðum fyrir jólin þegar rætt var um að sameina og selja svo þá var það skoðun hv. þingmanna Samfylkingarinnar að ekki ætti að fara þá leið heldur einmitt þessa. Ég held að þeir hljóti að fagna því og þýðir ekkert að hafa aðra tilburði í þessum efnum. Það kom m.a. fram hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að ekki væri séð hvernig hagræðing ætti að nást með þessum aðgerðum. Þá væri kannski eðlilegt að ég spyrði hann til baka: Hvar sá hann hagræðinguna fyrir jólin af því að fara þessa leið en ekki þá sem ég vildi fara þá? Þá virtist þessi leið ekki vandkvæðum bundin.

Hv. þm. Jón Bjarnason flutti hér ræðu og talaði mikið um almenningsþjónustuskyldur. Það er í sjálfu sér ákaflega fallegt sjónarmið og hugsjón sem felst í því orði. Hins vegar er bankaþjónusta ekki hluti af velferðarkerfinu. Þannig er ekki hægt að tala þannig um þetta. Þetta er fyrirtækjarekstur rétt eins og matvöruverslunin og við höfum ekki getað skikkað nokkra verslun í þjóðfélaginu til að reka verslanir í hverju einasta byggðarlagi. Hins vegar tel ég að þjónusta og útibúanet bankanna sé þéttara hér en almennt gerist, miðað við fólksfæð. Ég veit að að undanförnu hefur verið tilhneiging í þá átt að minnka þjónustuna. Það er áhyggjuefni en engu að síður hefur þessi þjónusta verið allgóð. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að bankarnir sinni landsbyggðinni minna nú hvað varðar lánveitingar en áður hefur verið.

Þá er ég komin að því sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson talaði um og fleiri, einnig hv. þm. Jón Bjarnason. Þeir vitnuðu til orða hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Það er ekkert launungarmál að það er áhugamál hans, áhugamál mitt og fleiri aðila að styrkja Byggðastofnun. Ég vil hins vegar ekki að um það sé talað eins og stofna eigi til nýs ríkisbanka. Mér finnst það of stórt orð. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að styrkja Byggðastofnun og hugmyndir mínar ganga út á að hluti af því fjármagni sem fæst fyrir sölu bankanna geti farið í þann farveg.

Það að Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlit eigi að vinna saman að eftirliti held ég að sé ekki endilega nauðsynlegt. Ég geri þó ekki lítið úr því að þessar stofnanir gegna báðar mjög mikilvægu hlutverki í sambandi við einkavæðingu bankanna, þá ekki síður Fjármálaeftirlitið sem við munum nú fjalla frekar um í sambandi við næsta mál á dagskrá.

Ég held að ég sé nokkurn veginn komin í gegnum það sem mest var til umfjöllunar hjá hv. þingmönnum. Tíma mínum er víst um það bil að ljúka. Samkeppnisstofnun tekur náttúrlega á því ef um markaðsráðandi stöðu er að ræða. Það er hlutverk hennar samkvæmt lögum. Ég á einhvern tíma eftir ef menn óska eftir fleiri svörum.