Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 18:14:05 (5627)

2001-03-13 18:14:05# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[18:14]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sverrir Hermannsson flutti ákaflega fína ræðu í dag. Þar hlóð hann málefnalegum rökum á hæstv. ráðherra. Mér finnst það smekkleysa af verstu sort að taka til orða eins og hæstv. ráðherra gerði hér áðan. Ég verð að segja að það hlýtur að vera fordæmalaust að einn ráðherra skuli með þessum orðum víkja að fjarstöddum þingmanni.

Herra forseti. Það sem mér finnst skipta hvað mestu máli í því sem hæstv. ráðherra sagði áðan voru lokaorð hæstv. ráðherra þegar hún sagði að það væri ekkert launungarmál að það væri hennar vilji og fleiri þingmanna Framsfl. að peningar sem yrðu til við sölu bankanna færu í að styrkja Byggðastofnun. Með öðrum orðum er hæstv. ráðherra í reynd að segja: Það á að búa til nýja ríkisstofnun, nýjan ríkisbanka. Það á að flýja með fjármagn ríkisins úr hlutafélagabönkum yfir í nýjan ríkisbanka.

Herra forseti. Það á sem sagt að nota andvirðið úr sölu bankanna til þess að auka ríkisútgjöld. Þetta er þvert á allar þær ráðleggingar sem koma fram í greinargerðum Þjóðhagsstofnunar og Seðlabankans. Þetta er þvert á það sem hæstv. fjmrh. og forsrh. sögðu í umræðunni í gær. Það sem hæstv. ráðherra er að lýsa hérna er algjörlega í andstöðu við stefnu ríkisstjórnarinnar.

Er lýsingin á því sem hér er að gerast virkilega eftirfarandi: Það er verið að búa til fjármagn með því að selja hlutafélagabanka sem er að meiri hluta í eigu ríkisins til að búa til nýja ríkisstofnun sem á að spreða fé út um landið og nota til þess að kaupa atkvæði fyrir Framsfl.? Ég hef aldrei staðið andspænis öðru eins.