Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 18:18:59 (5631)

2001-03-13 18:18:59# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[18:18]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu sinni tók hæstv. ráðherra undir sjónarmið okkar í Samfylkingunni vegna þess að hún sagði einfaldlega að selja ætti bankana eftir aðstæðum á markaði hverju sinni. Hvers vegna í ósköpunum er hæstv. ráðherra þá að binda sig við það að selja bankana innan tveggja ára? Það er það sem hæstv. ráðherra er að segja, og þess vegna er það markleysa. Ef eitthvert mark er takandi á hæstv. ráðherra í þessu efni, þá ætti hún ekki að binda sig við tvö ár eins og verið er að gera. Ef aðstæður á markaðnum væru þær sömu og nú eru, er þá skynsamlegt að setja hundruð millj. inn á markað eins og áform liggja fyrir um? Ég spyr hæstv. ráðherra: Liggur t.d. fyrir að það eigi þá að fresta sölu á hlutabréfum í Landssímanum ef á að setja svona mikið á markað eins og að er stefnt?

Síðan vil ég lýsa vonbrigðum mínum með afstöðu hæstv. ráðherra til starfsmannanna í bönkunum. Það hefur greinilega ekkert samráð verið haft við starfsmennina frá því að áformað var að fara út í sölu á báðum bönkunum og það er ekki einleikið hvernig ríkisstjórnin treður á starfsmönnum aftur og aftur í einkavæðingaráformum sínum. Er hæstv. ráðherra tilbúin að beita sér fyrir því að það sé starfsmannavelta sem ráði ferðinni og það sé sett sem skilyrði fyrir sölunni en að starfsmenn þurfi ekki að búa við það að þeir geti átt von á uppsögn? Ég spyr hæstv. ráðherra: Af hverju er ekki hægt að byrja í bönkunum með það að starfsmenn eigi aðild í bankaráðum eins og er alls staðar á Norðurlöndum og alls staðar í fyrirtækjum á Norðurlöndum þar sem er hlutafélagarekstur? Af hverju má ekki byrja þar? Af hverju ekki að nýta þá þekkingu og reynslu sem starfsmenn búa yfir og líta á það sem jákvætt innlegg en ekki eins og hæstv. ráðherra sagði að það gæti dregið úr verði á bönkunum ef slíkt skilyrði yrði sett?