Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 18:24:54 (5635)

2001-03-13 18:24:54# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[18:24]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mjög sérstætt hefur verið, svo ekki sé stærra upp í sig tekið, að hlýða á hæstv. viðskrh. í þessum örstuttu ræðum sem hún hefur flutt. Í fyrsta lagi hefur hún veist að fjarstöddum hv. þm. með mjög ósmekklegum hætti og í öðru lagi hefur hún sakað hv. þm. Samfylkingarinnar um að þeir vilji ekki veg landsbyggðarinnar sem mestan án þess að rökstyðja á nokkurn hátt fullyrðingar af þeim toga.

Ég vil bara nefna það, virðulegi forseti, út af orðum hæstv. byggðamálaráðherra, að það er rétt að halda því til haga að ef landsbyggðin á vin eins og þann hæstv. ráðherra, þá þarf hún ekki óvin.

Virðulegi forseti. Það sem er að koma hér fram er það sem maður óttaðist, sú tíð sem maður var að vonast til að væri liðin, að verið sé að ráðstafa almannafé með einhvers konar sjóðasukki, að verið sé að flýja með fé úr hlutafélagaforminu --- vegna þess að það er dálítið erfitt að leika sér með það á pólitískan hátt og jafnvel nýta það á pólitískan hátt til þess að kaupa sér atkvæði --- til þess að búa einhvers konar undirstofnun eða breyta Byggðastofnun í ríkisbanka þar sem hægt er að ráðstafa fjármunum á pólitískan hátt eftir smekk og behag.

Ég vil segja, virðulegi forseti, að þessi umræða hefur farið í mjög sérstæðan farveg nú undir lokin og þrátt fyrir að hún hafi ekki verið löng af hálfu hæstv. viðskrh. þá hefur hún lokið henni með mjög sérstæðum hætti. Mér finnst reyndar sjálfum mjög gott að það skuli hafa komið fram að verið sé að flýja með fjármuni úr hlutafélagaforminu af því að það er vandmeðfarið, koma því undir ríkisstofnun í því skyni að dreifa því væntanlega eftir einhverjum pólitískum línum.

Staðreyndin er nefnilega sú að þær pólitísku línur hafa ekki verið landsbyggðinni til framdráttar hingað til.