Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 18:27:10 (5636)

2001-03-13 18:27:10# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[18:27]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þm. Samfylkingarinnar eru komnir í mikla vörn út af byggðamálunum og ég skil það í sjálfu sér ósköp vel. En það sem varð til þess að þessi umræða fór af stað um þau mál voru sérstaklega orð hv. formanns Samfylkingarinnar þegar hann kallar það að spreða fé út um landið ef veitt er fjármagn til landsbyggðarinnar. Þetta er mjög athyglisvert og hlaut að vera að það mundi vekja frekari umræðu og það væri þá sem sagt verið að kaupa sér atkvæði.

Nú er það þannig að Samfylkingin á tvo fulltrúa í stjórn Byggðastofnunar og ef það er einungis til þess að afla sér fylgis að veita fé til landsbyggðarinnar, þá vill það svo til að það er ekki nema einn flokksbundinn framsóknarmaður í þeirri stjórn þannig að mér finnst þessi orð hv. þm. kannski segja nokkuð mikið um það hvernig þeir líta á vinnu sinna manna í þessari stjórn.