Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 18:57:09 (5646)

2001-03-13 18:57:09# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[18:57]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hverju það sætir að samfylkingarmenn efast stöðugt um að ég hafi verið hér í þinghúsinu. Ég bendi hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni á að fletta því upp á morgun og komast að því að ég var þingforseti allan tímann sem hann talaði.

Kannski er ekki svo langt á milli skoðana okkar. Ég veit ekki betur en ég hafi verið að tala um að ég teldi óráðlegt að fara út í að selja ríkisbankana, hefðu menn plön um sjóðsmyndun af þessu tagi. Út frá okkar bæjardyrum séð væri heppilegra að hafa stóran og öflugan ríkisbanka, ekki alfarið í eigu ríkisins en þó að meiri hluta, einmitt til að hafa hlutina á þessum bankalegu forsendum. Ég get ekki séð að það sé svo ýkja mikið sem okkur greinir á um en ég mun líka fletta upp í ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar í fyrramálið. Ég tel mig muna að hann hafi sagt í þingræðu áðan meðan ég sat á forsetastóli, að bankastarfsemin í landinu væri langbest komin í höndum einkaaðila og það væri bjargföst trú hans.