Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 19:03:02 (5650)

2001-03-13 19:03:02# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[19:03]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. lagði bara á flótta inn í sparisjóðina. Ég var að spyrja hv. þm. eða leitast við að fá upplýsingar frá honum um það hvernig hann gæti séð fyrir sér að það væri lagt á einhverja einstaka stofnun að þjóna landinu með allt öðrum hætti en aðrar stofnanir sem stofnunin eða fyrirtækið væri í samkeppni við. Hann svaraði því engu og benti á sparisjóðina. Sparisjóðirnir eru hin bestu fyrirtæki, en þeir eru ekki alls staðar. Ætlar hv. þm. að leggja það á þá sparisjóði sem nú eru til að veita alþjónustu um allt land? Nei, það held ég ekki. Ég held að hv. þm. hafi ekki verið að meina það. Ég held hins vegar að við þurfum að fá miklu betri útskýringar á því hvernig þetta alþjónustuhlutverk á að vera, ef menn eiga að geta tekið afstöðu til þess. Og ég skora á hv. þm. Vinstri grænna að færa þetta í frumvarpsform og setja með því skýringar þannig að maður geti lagst yfir það og reynt að velta því fyrir sér hvernig þetta eigi allt saman að virka.