Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 19:26:50 (5658)

2001-03-13 19:26:50# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[19:26]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé í raun dálítið erfitt að tryggja þessa dreifðu eignaraðild sem við höfum talað mikið um. En það sem ég vildi þó frekar leggja áherslu á er að það frv. sem hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa lagt fram stenst ekki ákvæði EES-samningsins. Það er ljóst að Noregur, vegna sinnar löggjafar, er núna til meðferðar hjá Eftirlitsstofnun EFTA vegna þess að Norðmenn eru með ákvæði í lögum sem festir eignarhlut við ákveðið hámark. Og meðan staðan er sú getum við ekki að mínu mati lagt fram frv. á hv. Alþingi sem kveður á um að taka á málinu með þeim hætti. Því er þessi leið farin. Reyndar er þetta sú leið sem flestar þjóðir fara sem við berum okkur saman við þó að undantekningarnar séu Noregur, sem sennilega mun þá fara fljótlega í að breyta lögum, og Ítalía og Spánn eru reyndar með ákvæði sem eru þessa efnis en reyndar miklu hærra hlutfall sem miðað er við, sérstaklega á Spáni, það er 25% og er bara tímabundið. Ég held því að við eigum ekki þennan kost, hv. þm. Það er mín skoðun.